Fótbolti

Liverpool mætir Inter og Man. Utd. Atlético Madrid

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Liverpool mætir Inter í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.
Liverpool mætir Inter í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. getty/John Powell

Dregið var aftur í sextán liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í dag. Liverpool dróst gegn Inter, Manchester United gegn Atlético Madrid og þá eigast Real Madrid og Paris Saint-Germain við.

Upphaflega var dregið í hádeginu en vegna tæknilegra mistaka þurfti að draga aftur. United dróst gegn PSG í fyrri drættinum og fékk aftur erfiðan andstæðing, Spánarmeistara Atlético Madrid, í seinni drættinum.

Liverpool fékk Salzburg í fyrri drættinum en Ítalíumeistara Inter í þeim seinni. Líkt og í fyrri drættinum drógust Evrópumeistarar Chelsea gegn Frakklandsmeisturum Lille. Ensku meistararnir í Manchester City fengu aftur nokkuð þægilegan andstæðing, Sporting frá Lissabon.

Stærsta viðureign sextán liða úrslitanna er milli Real Madrid og PSG. Sergio Ramos mætir þar liðinu sem hann varð fjórum sinnum Evrópumeistari með og Kylian Mbappé liðinu sem flestir búast við að hann fari til næsta sumar. Upphaflega dróst Real Madrid gegn Benfica en Madrídingar voru ekki jafn heppnir í seinni drættinum.

Þýskalandsmeistarar Bayern München, sem unnu alla leiki sína í riðlakeppninni, mæta Salzburg frá Austurríki sem er í fyrsta sinn í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Ajax, sem vann einnig alla leikina sína í riðlakeppninni, mætir Benfica og Juventus og Evrópudeildarmeistarar Villarreal eigast við.

Leikið er heima og að heiman í 16-liða úrslitum en reglan um útivallarmörk hefur verið afnumin. Fyrri leikirnir eru 15., 16., 22. og 23. febrúar, en seinni leikirnir 8., 9., 15. og 16. mars.

Viðureignirnar í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar

  • Salzburg - Bayern München

  • Real Madrid - PSG

  • Liverpool - Inter

  • Juventus - Villarreal

  • Man. Utd. - Atlético Madrid

  • Chelsea - Lille

  • Benfica - Ajax

  • Sporting - Man. City

Ógildi drátturinn í sextán liða úrslitin

  • Benfica – Real Madrid
  • Villarreal – Manchester City
  • Atlético Madrid – Bayern München
  • Salzburg – Liverpool
  • Inter – Ajax
  • Sporting Lissabon – Juventus
  • Chelsea – Lille
  • PSG – Manchester United



Fleiri fréttir

Sjá meira


×