Erlent

Segja milljónir barna seldar í þræla- og kynlífsvinnu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Samkvæmt skýrslu Lumos eru milljónir barna út um allan heim rændar barnæskunni.
Samkvæmt skýrslu Lumos eru milljónir barna út um allan heim rændar barnæskunni. Getty/Beata Zawrzel

Alþjóðlegu hjálparsamtökin Lumos, sem voru stofnuð af rithöfundinum J.K. Rowling, segja um 5,4 milljónir barna út um allan heim búa á barnaheimilum þar sem þarfir þeirra eru vanræktar og þau eru misnotuð.

Lumos sendu frá sér skýrslu í gær sem Guardian segir þá fyrstu þar sem sýnt er fram á alþjóðlegt mynstur mansals á munaðarleysingjaheimilum. Skýrslan byggir á upplýsingum frá 84 samtökum í 45 ríkjum.

Í henni er rakið hvernig börnin eru notuð til að tryggja fjárframlög, meðal annars með því að halda þeim vannærðum og við afar bágar aðstæður. Þá er greint frá tilvikum þar sem barnaheimili voru í raun bækistöðvar fyrir mansal, þar sem börnin voru leigð kynferðisbrotamönnum í nokkrar klukkustundir eða daga.

Þá eru börnin einnig gerð út til að betla eða seld í vinnu, til að mynda á plantekrum og á námum. Það vekur athygli að mansal af þessu tagi virðist meira þar sem ferðaþjónusta hefur vaxið síðustu áratugi, meðal annars í Kambódíu og Úganda.

Í skýrslunni er greint frá því þegar um hundrað börn reyndu að flýja munaðarleysingjaheimili í Gvatemala eftir að hafa sætt misnotkun. Lögregla hafði upp á krökkunum og færði þau til baka. Fimmtíu og sex stúlkur, sem hafði verið komið fyrir í litlu herbergi, kveiktu eld til að ná athygli lögreglumanna fyrir utan. Þeir brugðist ekki við og 41 stúlka lést.

Samkvæmt skýrslunni er stundum um það að ræða að börn séu keypt af fátækum fjölskyldum og notuð til að hagnast á þeim. Talið er að í mörgum tilvikum séu þeir sem styðja umræddar stofnanir grunlausir um hvað raunverulega á sér stað innan þeirra.

Guardian greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×