Erlent

Erindrekar Litháens kallaðir heim frá Kína vegna „ógnana“

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Vilníus, höfuðborg Litháens.
Frá Vilníus, höfuðborg Litháens. AP/Mindaugas Kulbis

Ríkisstjórn Litháens hefur kallað erindreka sína og sendiráðsstarfsmenn í Kína heim og segir að sendiráðið í Kína verði starfrækt með fjarvinnu um óákveðinn tíma. Samband ríkjanna hefur beðið mikla hnekki eftir að Taívan opnaði ræðismannsskrifstofu í Litháen.

Alls hafa nítján Litháar yfirgefið Kína, samkvæmt frétt fréttaveitunnar Reuters. Heimildarmaður fréttaveitunnar í Litháen sagði fólkið hafa flúið frá Kína vegna ógnana.

Ráðamenn í Kína hafa að undanförnu aukið þrýsting á þau fáu ríki sem eiga í opinberum samskiptum við Taívan. Eyríkið, sem Kína gerir tilkall til og hefur heitið að sameina meginlandinu, rekur sambærilegar skrifstofur víða um Evrópu í Bandaríkjunum en þær bera nafn Taipei, höfuðborgar landsins.

Nýja skrifstofan í Litháaen ber nafn Taívans.

Í síðustu viku kom svo í ljóst að ráðamenn í Kína hefðu sagt alþjóðlegum fyrirtækjum að slíta öll tengsl við Litháen eða eiga á hættu að vera útilokuð frá mörkuðum í Kína. Kínverjar hafa stöðvað allan innflutning frá Litháen.

Sjá einnig: Kínverjar þrýsta á alþjóðleg fyrirtæki um að slíta tengsl við Litháen

Stjórnarflokkar Litháens samþykktu fyrir rúmu ári síðan að styðja „þá sem berjast fyrir frelsi í Taívan,“ eins og það var orðað. Í kjölfar opnunar skrifstofunnar kvörtuðu Kínverjar yfir því að Litháar hefðu hunsað viðvaranir þeirra og takmörkuðu samskipti ríkjanna.

Sendiherra Litháens í Kína var kallaður heim í september, að kröfu stjórnvalda í Kína.

Heimildarmenn Financial Times segja að stjórnvöld í Kína hafi krafist þess að erindrekar Litháens í Kína færu í utanríkisráðuneyti Kína og afhentu skilríki þeirra svo hægt væri að draga úr pólitískri stöðu þeirra í Kína.

Litháar óttuðust að með því myndu erindrekar þeirra missa friðhelgi í Kína og gætu verið handteknir og því væri öryggi þeirra í hættu.

Taívanar hafa farið fögrum orðum um Litháa og hrósað þeim og ríkisstjórn landsins fyrir ákvarðanatöku þeirra. Ríkisstjórn landsins hefur kallað eftir því að fyrirtæki í Taívan auki tengsl sín við Litháaen.


Tengdar fréttir

Reiðir yfir því að fá ekki boð á lýðræðisfund Bidens

Joe Biden mun í dag loka tveggja daga stafrænum lýðræðisfundi sínum með því að beina athygli að mikilvægi þess að standa í hárinu á harðræðisstjórnum og einræðisherrum og það að tryggja sjálfstæða fjölmiðla.

Taívan efst á baugi fundar Biden og Xi

Málefni eyríkisins Taívans eru talin verða efst á baugi fyrsta fjarfundar Joes Biden Bandaríkjaforseta og Xi Jinping, forseta Kína í dag. Ríkin tvö hafa eldað grátt silfur saman um fjölda mála að undanförnu en vaxandi spenna hefur ríkt að undanförnu vegna Taívans.

Xi festir sig í sessi og setur sig á stall með Mao og Deng

Leiðtogar Kommúnistaflokks Kína hafa samþykkt sögulega ályktun um flokkinn sem festir Xi í sessi sem einn af áhrifamestu leiðtogum Kína. Með þessu er Xi líklegur til að tryggja sér þriðja kjörtímabilið sem forseti Kína á næsta ári en það hefur enginn gert áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×