Körfubolti

Sóknar­leikurinn alls­ráðandi er Fjölnir vann í Grinda­vík

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sanja Orozovic var mögnuð í liði Fjölnis í kvöld.
Sanja Orozovic var mögnuð í liði Fjölnis í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Það var mikið skorað er Fjölnir sótti Grindavík heim í Subway-deild kvenna í körfubolta í kvöld, lokatölur 96-111. Sanja Orozovic á allt hrós skilið fyrir ótrúlegan leik en án hennar hefði Fjölnir ekki átt möguleika í kvöld.

Gestirnir úr Grafarvogi byrjuðu betur í kvöld og voru sjö stigum yfir eftir fyrsta leikhluta. Grindvíkingar tóku öll völd á vellinum í öðrum leikhluta á meðan ekkert gekk upp sóknarlega hjá Fjölni. Grindavík þremur stigum yfir í hálfleik, staðan 46-43.

Þó svo að sóknarleikur Grindavíkur hafi verið mjög fínn í síðari hálfleik, liðið skoraði samtals 50 stig, þá var varnarleikurinn ekki upp á marga fiska. Fjölnir setti niður hverja körfuna á fætur annarri og fór á endanum með sigur af hólmi þrátt fyrir að fá aðeins þrjú stig frá varamannabekk sínum í kvöld, lokatölur 96-111.

Sanja Orozovic átti hreint út sagt magnaðan leik í liði Fjölnis í kvöld. Hún skoraði 44 stig, þar af 15 fyrir utan þriggja stiga línuna. Þá gaf hún 11 stoðsendingar og tók 15 fráköst. Iva Bosnjak kom þar á eftir með 29 stig og Dagný Lísa Davíðsdóttir skoraði 23 stig.

Hekla Eik Nökkvadóttir var stigahæst í liði Grindavíkur með 24 stig. Þá skoraði Robbi Ryan 22 stig.

Fjölnir situr sem fyrr í 2. sæti deildarinnar, nú með 16 stig á meðan Grindavík er í 6. sæti með sex stig.


Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×