Umræðan

Íslenskur fótbolti hefur ekki efni á að vera í ruslflokki

Björn Berg Gunnarsson skrifar

Evrópuævintýri Blikakvenna mun eflaust reynast mikil lyftistöng fyrir íslenska kvennaknattspyrnu. Þátttaka í riðlakeppni Meistaradeildarinnar er meiriháttar afrek á alla mælikvarða en sökum þess hvernig verðlaunagreiðslum evrópska knattspyrnusambandsins UEFA er háttað verður áhugavert að rýna í fjármálahliðina. 

Þrátt fyrir heilmikla hlutfallslega aukningu greiðslna og styrkja í tengslum við stórmót kvenna í fótbolta eru fjárhæðirnar enn það lágar að ekki er víst að félög sem jafnvel ná alla leið í riðlakeppnina eigi fyrir kostnaði.

Hvað karlana varðar er allt annað uppi á teningnum og gríðarlegar fjárhæðir í spilinu. Litlu munar á að eitt karlalið sem fer stigalaust í gegnum riðil í Meistaradeildinni þéni á við heildargreiðslur UEFA til allra kvennaliða. Heilmiklar tekjur er líka að finna með þátttöku í Evrópudeild karla og nýstofnuð Sambandsdeild Evrópu getur reynst drjúg fyrir þau félög sem ná þar þokkalegum árangri. Það er því til mikils að vinna en fyrst þarf að komast þangað og þar liggur vandamál íslenskrar karlaknattspyrnu í dag.

Með slæmum árangri undanfarinna ára hefur efsta deild karla oltið niður styrkleikalista UEFA eins og knattspyrnumaður í stiganum á Prikinu og nú er svo komið að við erum í fjögurra landa ruslflokki álfunnar og þar megum við alls ekki vera. Með fullri virðingu fyrir nágrönnum okkar í Færeyjum og löndum á borð við Liechtenstein, Wales, Lúxemborg, Norður-Írland og Gíbraltar er fyrir neðan allar hellur að sjá Ísland neðar á lista, í samfloti við Svartfellinga, Andorra og San Marínó. Þó þetta sé fyrst og fremst kjánalegt (eins og barþjónninn sagði við fótboltagarpinn) er skaðinn einnig fjárhagslegur. Til að skilja það betur þurfum við að líta á fyrirkomulag Evrópukeppnanna.

Flókið fyrirkomulagið breytir ekki þeirri einföldu staðreynd að það er afar dýrt að ráfa um í ruslflokki og ef Evrópukeppnir eiga að vera raunveruleg tekjulind fyrir íslenska knattspyrnu.

Nýtt fyrirkomulag Evrópukeppna

Íslandsmeistararnir komast einir íslenskra liða í forkeppni Meistaradeildarinnar. Eða næstum því. Þar sem við erum í tossabekknum er okkur gert að taka þátt í sérstakri forkeppni forkeppninnar, fjögurra liða móti sem skilar einu liðanna farseðli í fyrstu umferð forkeppninnar, sem Gíbraltar kemst beint í svo ég ítreki þann beiska mola. Með sigri færist lið í næstu umferð forkeppninnar og að lokum í hina eiginlegu riðlakeppni og jafnvel lengra, en með tapi í forkeppni flyst félag yfir í hinar Evrópukeppnirnar tvær og veltur greiðsla UEFA á því hvar félagið dettur úr leik. Vinni íslenskt lið í dag einungis einn leik dettur það úr leik í 2. umferð forkeppni Sambandsdeildar Evrópu og þénar um 137 milljónir króna. Takist okkur þó að lyfta íslenskum fótbolta upp úr ruslflokki og sigrum einn leik í forkeppni Meistaradeildar Evrópu flytjast fulltrúar okkar í 3. umferð Evrópudeildarinnar og með tapi þar í umspil fyrir riðlakeppni Sambandsdeildarinnar. Í versta falli verða tekjurnar um 227 milljónir og er liðið einum sigri frá yfir hálfum milljarði króna.

Flókið fyrirkomulagið breytir ekki þeirri einföldu staðreynd að það er afar dýrt að ráfa um í ruslflokki og ef Evrópukeppnir eiga að vera raunveruleg tekjulind fyrir íslenska knattspyrnu, eins og þær ættu að geta verið, er nauðsynlegt að fulltrúar okkar í Evrópukeppnum verði studdir með ráðum og dáð. Tekið verði tillit til þátttöku þeirra hvað aðra keppnisleiki varðar og stuðningsmenn annarra félaga fjölmenni jafnvel á heimaleikina. Með betri árangri græða allir.

Höfundur er deildarstjóri Greiningar og fræðslu Íslandsbanka. Pistlar hans eru reglulegir á Innherja.




Umræðan

Sjá meira


×