Umræðan

Heimurinn þarf Bitcoin

Daníel Jónsson skrifar

Í Eþíópíu stendur ný vatnsaflsvirkjun sem getur framleitt um þrjú gígawött í núverandi mynd en um fimm gígawött þegar hún verður fullkláruð. Um 40 prósent þeirra 120 milljóna manns sem búa í landinu hafa engan aðgang að raforku.

Í ljósi þess að ekki er hægt að flytja alla þessa orku af svæðinu, hafa stjórnvöld tekið upp á því að semja við aðila sem stunda Bitcoin vinnslu til að kaupa orkuna á staðnum. Þetta kemur orkunni í verð sem fyrst, sem mun svo losa um fjármagn sem verður væntanlega notað til þess að byggja upp þá innviði sem þarf til þess að færa þjóðinni rafmagn.

Þetta er ekki einsdæmi í heiminum og alls ekki svo ólíkt þeirri vegferð sem Ísland hóf á sjöunda áratug síðustu aldar, þegar við ákváðum að reisa virkjanir og flytja út raforku. Í dag er uppsett afl allra virkjana á Íslandi um þrjú gígawött, eða jafn mikið og þessi eina ókláraða virkjun í Eþíópíu. Á sínum tíma var okkar besti kostur að selja aðilum í álframleiðslu Ísland sem góða staðsetningu fyrir álver. Sitt sýnist hverjum um stóriðjuna í dag en því verður ekki neitað að hún hefur gert mikið fyrir íslensku þjóðina og má færa sterk rök fyrir því að stór hluti þeirra lífsgæða sem við búum við í dag séu tilkomin vegna útflutnings á raforku.

Í dag er svo komið að þeir sem stunda Bitcoin vinnslu á Íslandi fá eingöngu að gera samninga um kaup á raforku með miklum skerðingarheimildum, til skamms tíma og þau ganga að þeim samningum með glöðu geði.

Aðilar sem stunda þá starfsemi að tryggja Bitcoin netið, oft nefnt námuvinnsla, hafa verið með starfsemi á Íslandi frá því um 2013. Þeir sem þekkja til vita að stóru gagnaverin á Íslandi, sem þjónusta allt frá kortafærslum til genarannsókna, voru öll byggð upp að einhverju leiti á þjónustu við Bitcoin netið. Þessi gagnaver voru öll seld á árunum 2021 fyrir 22 fyrir vel yfir 100 milljarða króna svo hér hefur orðið til mjög verðmætur iðnaður á skömmum tíma.

Með tímanum hafa gagnaverin að sjálfsögðu vaxið og þróast og eru nú öll farin að leggja minni áherslu á þjónustu við Bitcoin og meiri áherslu á ofurtölvur og gervigreind meðal annars.

Samhliða aukinni umræðu um Bitcoin í heiminum hafa heyrst háværar raddir hér á Íslandi sem tala þennan iðnað frekar stöðugt niður, nú síðast engin önnur en forsætisráðherra Íslands sem hefur fengið mikla athygli í kjölfar þeirrar fullyrðingar að „Bitcoin sé vandamál á heimsvísu.“

Fá aðeins orkusamninga með miklum skerðingarheinmildum

Hingað til höfum við sem störfum í þessum iðnaði almennt haldið okkur frá þessari umræðu enda hefur umræðan oftast einkennst af ýmist vanþekkingu eða í versta falli öðrum ásetningi (til dæmis þegar hún kemur frá svokölluðum varðhundum kerfisins). Hér þarf þó að staldra við og ræða hlutina af alvöru því þessi umræða er til þess fallin að skaða einn af þeim hlutum sem greinarhöfundur elskar hvað mest í heiminum: Ísland.

Það ætti nefnilega að vera frekar ljóst, hverjum þeim sem sjá vilja, að Bitcoin er ekki vandamál; Bitcoin er lausn.

Geymum það um stund að fara of djúpt í heimspekina, einstaklingsfrelsi, ógnarstjórnir, óðaverðbólgu og ýmislegt sem við Íslendingar eigum kannski erfitt með að sjá fyrir okkur.Ræðum frekar þessi sívinsælu orkumál og hvers vegna Bitcoin er frábær lausn fyrir Ísland og raforkukerfið okkar.

Það er ekkert gróðurhús, fyrirtæki eða heimili sem getur sætt sig við það að fá tölvupóst með tilkynningu um það að nú verði rafmagnslaust í viku frá og með miðnætti í kvöld.

Stórnotendur líkt og ál- og kísilver þurfa almennt að kaupa svokallaða „trygga“ orku. Það þýðir að ef aðili þarf 100 megawött af raforku í sína framleiðslu þá þarf seljandinn að ábyrgjast það að hann geti afhent það magn. Til þess að geta gengið í slíka ábyrgð þarf auðvitað að framleiða töluvert meira af orku því ýmislegt getur komið upp í framleiðslunni. Það þarf að vera rými til viðhalds og bilanir og önnur frávik geta að sjálfsögðu alltaf komið upp. Þarna verður til svokölluð ótrygg eða skerðanleg orka sem er ekki auðseljanleg vara því kaupandinn þarf að sætta sig við það að hann gæti þurft að sæta rafmagnsleysi með litlum fyrirvara.

Þessu til staðfestingar má lesa eftirfarandi í nýjasta ársreikningi Landsvirkjunar:

„Nýting fjárfestingar Landsvirkjunar í uppsettu afli til raforkuframleiðslu er um 75%, sem er með því besta sem gerist í vatnsorkukerfum í heiminum.“

Ef 25 prósent framleiðslugetu eru vannýtt og við tökum einungis Kárahnjúkavirkjun sem dæmi þá má lauslega áætla að þar séu um 172 megawött laus sem gætu skapað yfir átta milljarða króna á ári í tekjur ef hægt væri að selja þau.

„Endursamið var við gagnaver sem stunda rafmyntavinnslu. Endursamningarnir fólu í sér mikinn samdrátt í raforkusölu til slíkrar starfsemi. Nýir raforkusamningar við gagnaver sem stunda rafmyntavinnslu eru með miklum skerðingarheimildum, en slíkir samningar eru mikilvægir Landsvirkjun til þess að hámarka verðmæti þeirra endurnýjanlegu orkulinda sem fyrirtækinu er trúað fyrir.

Hér er talað frekar skýrum orðum um það hversu mikilvægir skerðanlegir samningar eru til að hámarka verðmæti auðlinda okkar.

Í dag er svo komið að þeir sem stunda Bitcoin vinnslu á Íslandi fá eingöngu að gera samninga um kaup á raforku með miklum skerðingarheimildum, til skamms tíma og þau ganga að þeim samningum með glöðu geði.

Forsætisráðherra talar um að nýta orkuna frekar í matvælaframleiðslu en staðreyndin er sú að þau sem kaupa skerðanlega raforku eru einfaldlega að kaupa allt aðra vöru en notuð er af iðnaði og heimilum landsins. Það er ekkert gróðurhús, fyrirtæki eða heimili sem getur sætt sig við það að fá tölvupóst með tilkynningu um það að nú verði rafmagnslaust í viku frá og með miðnætti í kvöld. Það er nánast enginn stórnotandi sem gæti sætt sig við slíkt ástand, annar en þeir sem stunda Bitcoin vinnslu.

Fiskiðnaður er líklega næsti iðnaður á eftir gagnaverum sem hefur verið hvað mest að nýta skerðanlega orku. Það er leitt að sjá gagnaverum og Bitcoin kennt um það að bræðslur þurfi að keyra á olíu. Raunveruleikinn er sá að bræðslurnar þurfa almennt orkuna stopult yfir árið. Það er erfitt að réttlæta það að selja ekki orku heldur geyma hana fyrir notanda sem þarf hana bara „stundum.“ Hins vegar væri nær að leita leiða til samvinnu í formi þess að gagnaver gætu mögulega endurselt eða „skilað“ einhverri orku til fiskvinnslu þegar þess þarf og þannig hámarkað verðmætasköpun.

Bitcoin er ný tækni og í árdaga hennar fór mikið af vinnslunni fram í Kína þar sem hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa er ekki mjög hátt og því fór lengi vel það orð af Bitcoin að það “mengaði”. Bitcoin, eins og önnur tölvuvinnsla, veldur auðvitað engum útblæstri þó raforkuframleiðsla geti vissulega gert það. Í gegnum tíðina hefur það þó sýnt sig að þau sem stunda Bitcoin vinnslu hafa sótt í endurnýjanlega orkugjafa og framsýnar lausnir.

Er góð hugmynd að láta vatnið renna til sjávar?

Nokkrar hugmyndir að því hvernig Bitcoin getur verið gagnlegt á Íslandi, umfram það að afla okkur tekna með sölu á skerðanlegri orku:

  • Fjarvarmaveitur: Það má setja upp smágagnaver við fjarvarmaveitur. Kælikerfi gagnaversins geta skilað heitu vatni inn á veituna og þar með lækkað hitaveitukostnað viðkomandi svæðis eða skapað tekjur sem stuðla að frekari uppbyggingu.
  • Fiskvinnsla: Samstarf um samnýtingu eða endursölu á raforku til að tryggja orkuöryggi vinnslunnar.
  • Kornrækt: Það þarf að þurrka korn og þar getur glatvarmi frá gagnaverum komið að gagni.

Í grunninn er málið afar einfalt: Aðilar sem stunda Bitcoin vinnslu eru líklega besti nýi viðskiptavinahópur sem hefur komið til leiks síðustu ár, tilbúnir til að gera afar sveigjanlega samninga á vöru sem ekki hefur fengið mikla eftirspurn og greiða vel fyrir. Þessi hópur hefur á engum tímapunkti talað fyrir nýjum virkjunum eða aukinni raforkuframleiðslu, mengar ekkert, skilar auknum tekjum í þjóðarbúið og skapar atvinnu.

Að leggja það til að slíkri starfsemi verði alfarið hætt á Íslandi í skiptum fyrir það að láta meira vatn renna til sjávar getur seint talist góð hugmynd.

Höfundur er framkvæmdastjóri GreenBlocks og stjórnarformaður Visku Digital Assets.


Tengdar fréttir

Bónus, við­bót eða um­fram­orka

Undanfarin misseri hefur verið rætt um skerðanlega orku og forgangsorku. Það er ákaflega flókið að reka lokað raforkukerfi 100% endurnýjanlegrar orku þar sem náttúruöflin ráða vinnslugetu hvers árs og ekki er hægt að bæta meiri orku inn á kerfið þegar eftirspurnin eykst.

Ardian hyggst fjór­falda um­svif Ver­ne og leggja gagna­verunum til 163 milljarða

Franska sjóðastýringarfyrirtækið Ardian mun leggja gagnaverum Verne, sem meðal annars er með starfsemi á Íslandi, til 1,2 milljarða Bandaríkjadala, jafnvirði 163 milljarða króna, til að vaxa í Norður-Evrópu og fjórfalda þannig umsvifin. Eftir kaupin hefur Ardian, sem á Mílu, fjárfest fyrir jafnvirði um það bil 120 milljarða á Íslandi. „Við erum einn stærsti erlendi fjárfestir á Íslandi og höfum mikla trú á landinu,“ segir framkvæmdastjóri hjá félaginu.

Ættum að mark­a stefn­u um upp­bygg­ing­u gagn­a­ver­a eins og hin Norð­ur­lönd­in

Hin Norðurlöndin hafa gert markvissar áætlanir um hvernig megi byggja upp gagnaversiðnað enda skapar hann vel launuð störf, auknar gjaldeyristekjur og er góð leið til að fjölga eggjum í körfunni þegar kemur að orkusölu. Ísland ætti að gera slíkt hið sama. Spár gera ráð fyrir að þörf fyrir reikniafl og gagnageymslu í heiminum muni margfaldast á næstu árum, segir formaður Samtaka gagnavera í viðtali við Innherja.




Umræðan

Sjá meira


×