Innlent

Kynlífsþrælkun, mansal og umfangsmikil brotastarfsemi hér á landi

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Runólfur Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn greiningardeildar ríkislögreglustjóra.
Runólfur Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn greiningardeildar ríkislögreglustjóra. Vísir/Arnar Halldórsson

Kynlífsþrælkun og mansal þrífst í miklum mæli hér á landi, að sögn greiningardeildar ríkislögreglustjóra, sem telur mikla ógn stafa af skipulagðri brotastarfsemi. Þá fari íslenskur fíkniefnamarkaður stöðugt stækkandi.

Talið er að hundruð einstaklinga tengist skipulagðri brotastarfsemi hér á landi og að velta hennar hlaupi á milljörðum króna ár hvert. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í svartri skýrslu ríkislögreglustjóra sem varpar ljósi á umfangsmikla fíkniefnaneyslu, brotastarfsemi, peningaþvætti, mansal og fleira.

„Þessi rannsókn leiddi í ljós að við erum á pari við aðrar borgir í Evrópu, miðað við þær rannsóknir sem þar hafa verið gerðar. Og það kom á óvart að amfetamínneysla virðist vera örlítið meiri hér á landi en í þeim borgum sem voru rannsakaðar í Evrópu,” segir Runólfur Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn greiningardeildar ríkislögreglustjóra.

Þá segir hann að ferðatakmarkanir virðist hafa haft lítil áhrif á innflutning fíkniefna til landsins. Sömuleiðis sé skipulögð brotastarfsemi hér svipuð og í nágrannalöndunum; meiri atvinnumennska, aukin notkun stafrænnar tækni og aukin fjölþjóðavæðing. Viðskiptin séu að miklu leyti að færast yfir á smáforrit en hér fyrir neðan má sjá auglýsingu þar sem fíkniefni og vændi eru auglýst. 

Runólfur segir ljóst að mansal þrífist hér á landi.

„Það teljum við vera staðfest þó það hafi ekki farið mörg mál í gegnum ákæruferli hjá okkur. Það skýrist af því að lagaumgjörðin varð skýrari núna á þessu ári og við höfum upplýsingar um að það eru fleiri mál sem munu koma til kasta ákæruvaldsins og dómstóla í þessum málaflokki.”

Helsta birtingarmyndin sé kynlífsþrælkun og vinnumansal.

„Við sjáum það í byggingariðnaði, við sjáum það í ferðamannaiðnaðnum, og við sjáum að fólk lendir í mjög erfiðri stöðu. Það er verið að hagnýta sér neyð fullt af fólki. Þetta er mikið áhyggjuefni og við þurfum að bregðast við þessu,” segir Runólfur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×