Enski boltinn

Búið að fresta helmingi helgarleikjanna í ensku úrvalsdeildinni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Thomas Frank, knattspyrnustjóri Brentford, kallaði eftir því í gær að öllum leikjum helgarinnar yrði frestað.
Thomas Frank, knattspyrnustjóri Brentford, kallaði eftir því í gær að öllum leikjum helgarinnar yrði frestað. Clive Rose/Getty Images

Fimm af þeim tíu leikjum sem áttu að fara fram um komandi helgi í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta hefur verið frestað. Þetta kemur í kjölfarið á fjölda kórónuveirusmita sem hafa verið að greinast innan félaga deildarinnar.

Fyrr í dag var það staðfest að leikur Manchester United og Brighton á laugardaginn myndi ekki fara fram, og nú í kvöld var ákveðið að fresta fjórum leikjum til viðbótar.

Það eru viðureignir Southampton og Brentford, Watford og Crystal Palce, West Ham og Norwich og Everton og Leicester.

Þá var leikjum Brentford og Manchester United, Burnley og Watford og Leicester og Tottenham í miðri viku einnig frestað.

Thomas Frank, knattspyrnustjóri Brentford, kallaði eftir því í gær að öllum leikjum helgarinnar yrði frestað til að gefa félögunum tækifæri á að ráða niðurlögum veirunnar innan liðanna. Hingað til hefur enska úrvalsdeildin verið treg til, en nú gæti farið svo að fleiri leikir verði látnir bíða betri tíma.


Tengdar fréttir

Öðrum leik hjá United frestað

Leik Manchester United og Brighton í ensku úrvalsdeildinni sem átti að fara fram í hádeginu á laugardaginn hefur verið frestað vegna fjölda kórónuveirusmita í herbúðum United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×