Sport

Liðið hans Tom Brady skoraði ekki eitt stig í nótt: Hafði ekki gerst í fimmtán ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þetta var mjög erfitt kvöld fyrir Tom Brady og félaga í Tampa Bay Buccaneers.
Þetta var mjög erfitt kvöld fyrir Tom Brady og félaga í Tampa Bay Buccaneers. AP/Mark LoMoglio

Tom Brady og félagar hans í NFL-meistaraliði Tampa Bay Buccaneers töpuðu leik sínum í nótt en stærsta fréttin var kannski að þeir skoruðu ekki eitt einasta stig í leiknum.

Þetta var annars skrautlegur leikur sem endaði með 9-0 sigri New Orleans Saints.

Sparkarinn Brett Maher skoraði þrjú vallarmörk og það voru einu stig leiksins.

Buccaneers liðið hefði tryggt sér sæti í úrslitakeppninni með sigri.

Hinn 44 ára gamli Tom Brady hefur verið frábær á tímabilinu en það gekk ekkert upp í nótt. Hann kastaði boltanum tvisvar frá sér og var felldur fjórum sinnum.

Þetta er í fyrsta sinn síðan árið 2006 þar sem liðið hans Brady tekst ekki að skora stig en hann hafði spilað 255 leiki í röð með að minnsta kosti þrjú stig á töflunni.

„Ég held að við höfum ekki verið góðir í neinu í nótt,“ sagði Tom Brady.

Vikuna áður hafði Brady verið sá fyrsti í sögunni til að kasta fyrir 700 snertimörkum.

„Þetta var ekki bara eitthvað eitt heldur fullt af hlutum. Við verðum að gera betur í öllu í sóknarleiknum okkar. Við vinnu ekki leiki ef við skorum ekki stig,“ sagði Brady.

Tampa Bay Buccaneers liðið er samt áfram á toppnum í suðurriðli Þjóðardeildarinnar.

„Við verðum að vera miklu betri. Við verðum að vinna mikið í okkar málum og það er mikið af fótbolta eftir enn,“ sagði Brady.

Ofan á slaka frammistöðu þá meiddust líka hlauparinn Leonard Fournette og útherjarnir öflugu Chris Godwin og Mike Evans. Þetta var því skelfilegur leikur fyrir Buccaneers á alla mögulega vegu.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×