Jól

Jólamolar: Er ekki íhaldssöm þegar kemur að jólunum

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Áslaug Arna hefur ekki alltaf verið mikið jólabarn en segist í dag skreyta meira en áður og njóta þess að skapa nýjar hefðir.
Áslaug Arna hefur ekki alltaf verið mikið jólabarn en segist í dag skreyta meira en áður og njóta þess að skapa nýjar hefðir. Vísir/Egill

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra eyðir jólunum á þinginu þar sem hún vinnur hörðum höndum að því að búa til nýtt ráðuneyti. Hún ætlar þó líka að njóta hátíðanna í faðmi fjölskyldu og vina. Þrátt fyrir að vera ekki mjög íhaldssöm þegar kemur að jólunum, á hún þó nokkrar hefðir eins og að kaupa furu, baka sörur með vinkonunum og fara á Jómfrúna í desember.

Jólamolar Vísis munu birtast reglulega fram að jólum. Þar fáum við að kynnast þjóðþekktum einstaklingum í nýju ljósi og komast að því hvað það er sem kemur þeim í jólagírinn. Jólamolunum er ekki síður ætlað að koma lesendum Vísis í hið eina sanna jólaskap.

Hvort myndirðu skilgreina þig sem Elf eða The Grinch?

Ég fer í allar áttir og hef verið þeir báðir. Ég er þó meiri Elf heldur en Grinch og nýt jólanna, skreyti meira en áður og bý mér til nýjar hefðir, er ekki íhaldssöm varðandi hefðir eða jólin nema að því leyti að ég mun alltaf kaupa furu.

Hver er þín uppáhalds jólaminning?

Það eru margar notalegar stundir í faðmi þeirra sem nú eru farnir.

Áslaug Arna segist ekki vera íhaldssöm þegar kemur að jólahefðum en hún kaupir sér þó alltaf furu.

Hver er eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið?

Miði á Coldplay tónleika frá bróður mínum sömu jól og ég gaf honum stuttermabol.

Hver er uppáhalds jólahefðin þín?

Baka sörur með vinkonunum, fara á Jómfrúna í desember og rölta um miðbæinn á Þorláksmessu.

Hvað er uppáhalds jólalagið þitt?

Það snjóar með Sigurði Guðmundssyni og Memfísmafíunni.

Hver er þín uppáhalds jólamynd?

The Holiday.

Hvað borðar þú á aðfangadag?

Oftast hamborgarhrygg en við höfum líka oft borðað eitthvað annað og prófað ýmislegt.

Hvers óskar þú þér í jólagjöf í ár?

Ég væri til í bækur eða upplifun.

Áslaug Arna ætlar að njóta hátíðanna með fjölskyldu og vinum og hvetur hún landsmenn til þess að knúsa fólkið sitt.

Hvað er það sem hringir inn jólin fyrir þér?

Að skreyta jólatréð, röltið í miðbænum á Þorláksmessu og svo á aðfangadag er það messan í sjónvarpinu kl 18.

Er eitthvað skemmtilegt á döfinni hjá þér núna fyrir jólin?

Ég verð í þinginu núna um jólin og að vinna í því að búa til nýtt og spennandi ráðuneyti háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarmála. Mér finnst það ótrúlega skemmtilegt verkefni en fyrir utan vinnuna er það bara að njóta hátíðanna með fjölskyldu og vinum.

Eitthvað annað skemmtilegt sem þú vilt koma á framfæri?

„Knúsið fólkið ykkar og gerið það sem gefur ykkur gleði – lífið er einstakt ferðalag!“

Tengdar fréttir

Jólamolar: Besta jólagjöfin væri að greinast ekki með Covid

Leikkonan Júlíana Sara Gunnarsdóttir er á fullu að æfa fjölskylduleikritið Langelstur að eilífu þessa dagana. Hún er í sóttkví í augnablikinu og óskar þess heitast að greinast ekki með Covid fyrir jól. Heimagerðar jólagjafir eru í uppáhaldi hjá Júlíönu. 

Jóla­molar: Man alltaf eftir því þegar hann fékk trönur í jóla­gjöf

Bakarinn Jóhannes Felixson eða Jói Fel, hefur alltaf haft nóg að gera í desember. Árið í ár er engin undantekning þrátt fyrir að verkefnið sé af öðrum toga. En hann er á fullu að undirbúa opnun á nýjum veitingastað sínum, Felino, í listhúsinu í Laugardalnum.

Jólamolar: Eiginmanninum ofbauð þegar hún vildi hafa tvö jólatré

Samfélagsmiðlastjarnan og mannfræðingurinn Guðrún Veiga er eitt mesta jólabarn sem fyrirfinnst. Hún hlustar til dæmis á jólalög allan ársins hring og horfir á jólamyndir í júlí. Ein af hennar uppáhalds jólahefðum er að liggja í unaðslegri ofátsmóðu með bleikan Mackintosh mola að lesa góða bók.








×