Íslenski boltinn

Um 150 milljóna króna jólagjöf til yngri flokka Íslands frá UEFA og KSÍ

Sindri Sverrisson skrifar
Félög sem áttu fulltrúa í efstu deild karla síðasta sumar tryggðu sér með því 7,3 milljónir króna í yngri flokka starf sitt.
Félög sem áttu fulltrúa í efstu deild karla síðasta sumar tryggðu sér með því 7,3 milljónir króna í yngri flokka starf sitt. vísir/hulda margrét

Knattspyrnusamband Íslands tilkynnti í dag um úthlutun fjár frá UEFA, knattspyrnusambandi Evrópu, og KSÍ til íslenskra félaga vegna þróunarstarfs barna og unglinga í fótbolta.

UEFA nýtir hluta af tekjum sínum af Meistaradeild karla til að styðja við barna- og unglingastarf. Reglur UEFA kveða á um að þeir peningar dreifist á milli félaga í efstu deild karla í hverju landi.

Félög í efstu deild karla fá 7,3 milljónir hvert

Félögin tólf sem áttu lið í Pepsi Max-deild karla á síðustu leiktíð fá því mest fé eða tæplega 7,3 milljónir króna hvert.

Stjórn KSÍ samþykkti að bæta við um 60 milljónum króna til að styðja við starfið hjá félögum með lið í öðrum deildum en efstu deild karla.

Samkvæmt heimasíðu KSÍ er samanlagt framlag UEFA og KSÍ áætlað um 146 milljónir króna. Það er þó háð gengi gjaldmiðla á þeim degi sem greiðsla frá UEFA berst.

Yngri flokka starf skilyrði

Félög með lið í efstu tveimur deildum kvenna, og í 1. deild karla, fá 2,4 milljónir króna. Félög með lið í 2. deild karla fá 1,5 milljón, og félög með lið í neðri deildum 1 milljón hvert.

Þó er skilyrði að félög haldi úti starfsemi í yngri flokkum til að fá styrk. Félög á borð við Kórdrengi og KV, sem leika í 1. deild á næstu leiktíð, eru því ekki á meðal styrkþega.

Hver greiðsla skal renna óskipt til eflingar knattspyrnu barna og unglinga, frá yngstu iðkendum og upp í 2. flokk karla og kvenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×