Lögmenn á vegum Andrésar prins og Giuffre takast nú á um gildi þessa samkomulags fyrir dómstólum í Bandaríkjunum.
Lögmenn Andrésar vilja meina að samkomulagið útiloki það að Giuffre geti sótt mál á hendur honum. Lögfræðingar hennar segja hins vegar að samkomulagið sé óviðkomandi málarekstri hennar á hendur prinsinum.
Í frétt BBC segir að samkomulagið hafi verið gert árið 2009, þegar Giuffre höfðaði mál á hendur Epstein fyrir kynferðisofbeldi og kynlífsþrælkun. Málið fór hins vegar aldrei fyrir dómstóla vegna samkomulagsins.
Á það að hafa hljóðað upp á greiðslu fimm hundruð þúsund punda, um 65 milljóna króna á gengi dagsins í dag, í skiptum fyrir að halda málinu gegn Epstein, og öðrum mögulegum sakborningum, ekki til streitu.
Giuffre steig fram í sviðsljósið árið 2019 þegar hún sagði Epstein hafa skipað henni að stunda kynlíf með valdamiklum mönnum þegar hún var aðeins sautján ára gömul. Á meðal þeirra hafi verið Andrés prins, sem hún segir hafa verið virkan þátttakanda í misnotkun og ofbeldi af hálfu Epstein, sem lést árið 2019 í fangaklefa.
Giuffre hefur kært Andrés fyrir að hafa brotið gegn sér kynferðislega þrisvar sinnum á meðan hún var enn undir lögaldri. Prinsinn hefur staðfastlega neitað ásökununum og segist ekki muna eftir því að hafa verið kynntur fyrir Giuffre, þrátt fyrir að mynd sé til af þeim saman.
Tekist verður á um gildi samkomulagsins fyrir dómstóli í New York á morgun.