Handbolti

Þórir getur orðið þjálfari ársins í tveimur löndum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Hergeirsson að stýra norska landsliðinu á HM á Spáni í desember.
Þórir Hergeirsson að stýra norska landsliðinu á HM á Spáni í desember. EPA-EFE/Domenech Castello

Íslenski handboltaþjálfarinn Þórir Hergeirsson er einn af þeim sem eru tilnefndir sem þjálfari ársins í Noregi.

Samtök íþróttafréttamanna völdu Þóri þjálfara ársins á Íslandi á dögunum en nú getur hann unnið tvöfalt.

Idrettsgallan er árshátíð norska íþrótta og verður hún haldin í Osló um næstu helgi. Eins og hér heima á Íslandi þá eru bæði íþróttafólk, lið og þjálfarar tilnefnd til verðlaunanna.

Þórir er einn af sjö þjálfurum sem eru tilnefndir sem þjálfari ársins í Noregi.

Hinir sem eru tilnefndir eru frjálsíþróttaþjálfararnir Leif Olav Alnes og Gjert Ingebrigtsen, róðrarþjálfarinn Johan Flodin, blakþjálfarinn Kåre Mol, skíðaskotfimiþjálfarinn Patrick Oberegger og þríþrautarþjálfarinn Arild Tveiten.

Þórir gerði norska kvennalandsliðið að heimsmeisturum á dögunum en áður hafði liðið unnið Evrópumeistarartitilinn ári fyrr og brons á Ólympíuleikunum í sumar.

Kvennalandsliðið er líka tilnefnt sem lið ársins en enginn leikmaður liðsins var þó tilnefndur sem íþróttakona ársins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×