Þar mun Jón Arnór starfa í teymi eignastýringar hjá félaginu sem hefur verið að stækka ört síðustu misseri.
Jón Arnór, sem er í MBA námi við Háskólann í Reykjavík auk þess að stunda nám í verðbréfaviðskiptum, kemur til Fossa markaða frá BDA Sports Management en áður var hann í eigin fyrirtækja rekstri.
Jón Arnór, sem lagði skóna á hilluna á síðasta ári, á að baki afar farsælan körfuboltaferil og var meðal annars Íslandsmeistari með KR fimm sinnum og einu sinni bikarmeistari. Meirihluta ferilsins lék hann hins vegar erlendis sem atvinnumaður í Þýskalandi, Bandaríkjunum, Rússlandi, Ítalíu og á Spáni.
Fossar markaðir, sem hafa verið á meðal leiðandi verðbréfafyrirtækja hér á landi frá stofnun árið 2015, eru að færa út kvíarnar í starfsemi sinni og stefna nú að því að verða fjárfestingabanki, eins og Innherji greindi frá í síðasta mánuði. Skilaði félagið þannig nýlega inn umsókn til Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands þar sem óskað var eftir því að fá starfsleyfi sem fjárfestingabanki.
Fyrr á þessu ári kom félagið á fót eignastýringarsviði og þá stóðu Fossar einnig að stofnun sjóðastýringarfyrirtækisins Glyms eignastýring, ásamt Guðmundi Björnssyni sem er jafnframt framkvæmdastjóri félagsins, en það mun leggja áherslu á sérhæfðar fjárfestingar auk sérvalinna fjárfestinga fyrir fagfjárfesta.
Starfsmönnum Fossa markaða hefur fjölgað talsvert að undanförnu en í lok síðasta árs var meðal annars Róbert Grönqvist ráðinn frá Íslandsbanka og fer hann fyrir áhættustýringu félagsins.
Á árinu 2021 voru Fossar með næst mestu hlutdeildina í viðskiptum með hlutabréf í Kauphöllinni, litlu minni en Arion banki, og var hún tæplega 21 prósent. Þá var félagið sömuleiðis með einna mestu hlutdeildina í viðskiptum skuldabréf – á eftir Íslandsbanka og Arion – og nam hún um 16,2 prósent á síðasta ári.