Viðskipti innlent

Revolut Bank opnar á Íslandi

Eiður Þór Árnason skrifar
Joe Heneghan, forstjóri Revolut Bank.
Joe Heneghan, forstjóri Revolut Bank. Aðsend

Breska fjártæknifyrirtækið Revolut hefur opnað bankastarfsemi sína fyrir Íslendingum og starfar nú á Íslandi undir evrópsku bankaleyfi.

Yfir sex þúsund Íslendingar hafa notað fjármálaþjónustu Revolut, að sögn fyrirtækisins en með breytingunni geta notendur uppfært í Revolut Bank og opnað innlánsreikninga með innistæðutryggingu.

Revolut Bank veitir nú fjármálaþjónustu í gegnum app í 28 ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu en alls tíu ríku ríki bættust í þann hóp í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Revolut sem státar af yfir 18 milljónum viðskiptavina um allan heim. 

Innistæður á innlánsreikningum Revolut Bank eru tryggðar af af innistæðu- og fjárfestingatryggingu litháíska ríkisins fyrir að hámarki 100 þúsund evrur.

Viðskiptavinir Revolut geta opnað innlánsreikninga fyrir yfir þrjátíu mismunandi gjaldmiðla.Aðsend

Að sögn Joe Heneghan, forstjóra Revolut Bank, er fjártæknifyrirtækið eitt það hraðast vaxandi í heiminum í dag. Með því að hleypa bankanum formlega af stokkunum á Íslandi sé hægt að veita íslenskum notendum aukið öryggi og kynna fleiri nýjar vörur og þjónustur í framtíðinni.

Væntir Revolut þess að það geti veitt betri og öruggari bankaþjónustu en hefðbundnir bankar. 

„Vöruhönnun okkar er sú besta sem býðst, við erum með engin falin gjöld, og við erum stanslaust að þróa nýjar og frumlegar fjármálavörur,“ segir Joe Heneghan í tilkynningu.

Fréttin hefur verið uppfærð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×