Heimsmarkmiðin

Ráðstafa 20 milljörðum króna til mannúðaraðgerða

Heimsljós
OCHA/Jolie-Laure Mbalivoto

Talið að 274 milljónir manna þurfi á mannúðaraðstoð að halda.

Martin Griffith yfirmaður samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA) úthlutaði í gær 150 milljónum bandarískra dala – um 20 milljörðum íslenskra króna – úr neyðarsjóði Sameinuðu þjóðanna (CERF) til að styrkja vanfjármagnaðar aðgerðir í mannúðarmálum í þrettán ríkjum Afríku, Ameríku, Asíu og Miðausturlöndum.

„Þessi fjármögnun er björgunarhringur fyrir þær milljónir manna sem búa við þær aðstæður að afleiðingar áfalla sem riðið hafa eru vanfjármagnaðar. Þetta er stærsta einstaka úthlutun CERF og kemur til með nýtast í þeirri viðleitni að viðkvæm samfélög fái brýnustu nauðsynjar. Fjármögnun neyðarsjóðsins frá framlagsríkjum gerir okkur kleift að ganga lengra og ná fljótt til þeirra sem mest þurfa á aðstoð okkar að halda,“ segir Griffith.

Í frétt frá OCHA segir að í nýlegri spá á þörf fyrir alþjóðlegt mannúðarstarf á árinu sé talið að 274 milljónir manna þurfi á mannúðaraðstoð að halda, fleiri en marga síðustu áratugi. Sameinuðu þjóðirnar og samstarfsaðilar þeirra stefna að því að veita 183 milljónum manna aðstoð, þeim sem búa við mest bágindi, og verja til þess 41 milljarði Bandaríkjadala.

Þau þrettán ríki sem fá að þessu sinni úthlutað úr neyðarsjóðnum eru Sýrland, Lýðstjórnarlýðveldið Kongó, Súdan, Mjanmar, Búrkína Fasó, Tjad, Níger, Haítí, Líbanon, Madagaskar, Kenía, Angóla og Hondúras.

„Ég þakka öllum styrktaraðilum CERF sem með örlæti hafa gert þennan stuðning mögulegan. Saman gerum við gæfumuninn,“ segir Martin Griffith. Ísland er í hópi ríkja sem greiða árleg framlög til CERF samkvæmt rammasamningi en sjóðurinn er ein af fjórum áherslustofnunum Íslands í mannúðaraðstoð. CERF leggur áherslu á snemmtækar og skilvirkar aðgerðir til að draga úr manntjóni og neyð og grípur inn í þar sem neyðin er viðvarandi og gleymd.

Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.






×