Erlent

Gíslarnir lausir og byssumaðurinn látinn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Löggæsluyfirvöld og aðrir viðbragðsaðilar söfnuðust saman við grunnskólan í Colleyville, skammt frá bænahúsinu.
Löggæsluyfirvöld og aðrir viðbragðsaðilar söfnuðust saman við grunnskólan í Colleyville, skammt frá bænahúsinu. AP/Gareth Patterson

Bandaríska alríkislögreglan réðist inn í bænahús gyðinga Colleyville í nótt, tíu tímum eftir að maður tók fjóra einstaklinga þar í gíslingu. Byssumaðurinn er látinn en lögregla hefur ekki viljað gefa upp hvernig dauða hans bar að.

Maðurinn réðist inn í Congregation Beth Israel í Colleyville á Dallas-Fort Worth svæðinu og tók fjóra gísla, þeirra á meðal rabbína. Sex tímum síðar lét hann einn gísl lausan. Fjórum tímum eftir það réðist alríkislögreglan inn í bygginguna og frelsaði gíslana þrjá sem enn voru í haldi.

Blaðamenn á vettvangi sögðust hafa heyrt sprengingar og byssuskot skömmu áður en Greg Abbott, ríkisstjóri Texas, greindi frá því að ástandið væri liðið hjá. Michael Miller, lögreglustjóri Colleyville, sagði byssumanninn látinn en alríkislögreglan hefur ekki viljað greina frá því hvernig hann lést og segir málið í rannsókn.

Lögregla veit hver maðurinn var.

Atvikið átti sér stað á meðan bænastund var streymt frá bænahúsinu. Áður en útsendingin var rofin heyrðist gíslatökumaðurinn krefjast þess að Aafia Siddiqui yrði látin laus úr fangelsi en henni er haldið í alríkisfangelsi í Texas. Siddiqui er taugasérfræðingur og grunuð um að hafa tengsl við al Kaída. Hún var dæmd í fangelsi fyrir að reyna að myrða bandaríska hermenn á meðan henni var haldið í Afganistan.

Byssumaðurinn heyrðist einnig fjasa um trúarbrögð og systur sína. Þá sagði hann ítrekað að hann vildi ekki að neinn særðist og að hann teldi að hann myndi deyja. Victoria Francis, sem horfði á streymið í klukkutíma áður en klippt var á það sagði manninn hafa hótað Bandaríkjunum og sagst hafa sprengju. Hann hefði virkað pirraður, hlegið að sjálfum sér og augljóslega verið í miklu tilfinningalegu uppnámi.

Alríkislögreglan sagði í samtali við AP að ekki sé talið að atvikið sé hluti af stærri áætlun en að rannsókn málsins muni enga að síður ná út fyrir landsteinana.

Guardian greindi frá.


Tengdar fréttir

Gíslataka í bænahúsi gyðinga í Dallas

Vopnaður maður hefur tekið fólk gíslingu í bænahúsi gyðinga í Texas í Bandaríkjunum. Maðurinn segist vera vopnaður sprengjum og hafa tekið rabbína bænahússins og þrjár aðra gíslingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×