Innlent

Ráð­herrar skýri nýjar sótt­varnar­að­gerðir sam­­dægurs

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, skrifar undir bréfið.
Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, skrifar undir bréfið. Vísir/Vilhelm

Þingflokkur Viðreisnar hefur farið fram á að ráðherrar gefi Alþingi skýrslu, samdægurs, eða eins fljótt og auðið er, eftir að sóttvarnaraðgerðir eru kynntar eða framlengdar af hálfu stjórnvalda.

Þetta kemur fram í bréfi þingflokksins til forseta Alþingis, þar sem vísað er í að Svandís Svavarsdóttir, þáverandi heilbrigðisráðherra, hafi gefið Alþingi skýrslu um stöðu kórónuveirufaraldursins á tveggja vikna fresti, eftir beiðni Viðreisnar.

Í bréfinu segir að óvissa ríki um hvenær ætla megi að daglegt líf almennings komist í eðlilegt horf. Krefst þingflokkurinn þess að heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra, og eftir atvikum aðrir ráðherrar, gefi Alþingi skýrslu samdægurs eða eins fljót og auðið er í kjölfar þess að tilteknar sóttvarnaaðgerðir eru kynntar eða framlengdar af hálfu stjórnvalda.

Sóttvarnaraðgerðir voru síðast hertar á föstudaginn.

„Óskað er eftir því að skýrslugjöfin feli í sér upplýsingar um forsendur að baki þeim ákvörðunum sem teknar eru hverju sinni, um fyrirhugaðan árangur og áhrif á samfélagið að öðru leyti. Samtímis upplýsi ráðherrar Alþingi um hvort, og þá hvaða, aðgerðir verða lagðar fram til að mæta efnahaglegum og félagslegum afleiðingum sóttvarnaaðgerða hverju sinni. Með þessu móti fá forsendur og röksemdir stjórnvalda hverju sinni markvissari umræðu á vettvangi þingsins,“ segir í bréfinu.

Þar segir ennfremur að sé réttur þingsins að lýðræðisleg umræða fari fram um sóttvarnarráðstafanir ríkisstjórnarinnar. Það sé einnig skylda þingsins að ræða þær og sinna þannig eftirlitshlutverki sínu.

Bréf þingflokks Viðreisnar má lesa í tengdum skjölum hér fyrir neðan.

Tengd skjöl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×