Lög um opinber fjármál, sem tóku gildi 2016, voru mikilvægt framfaraskref í átt að aukinni ábyrgð í opinberum fjármálum. Ekki leið þó á löngu þar til ákveðið var að víkja frá þeim sporum sem mörkuð höfðu verið með lögunum. Á síðasta kjörtímabili var fjármálastefnan t.a.m. endurskoðuð tvisvar og skilyrðum um skuldahlutfall og heildarjöfnuð vikið til hliðar um fimm ára skeið í ljósi forsendubrests í efnahagslífinu.
Þó að efnahagsáföll hafi afhjúpað ákveðna veikleika í lögunum þýðir það ekki að þau séu best geymd á sorphaugum sögunnar. Þvert á móti væri kjörið að líta á reynslu undangenginna ára sem tækifæri til að endurskoða lögin með tilliti til þess hvernig þau geti sem best stuðlað að ábyrgum ríkisfjármálum til framtíðar.
Þó að efnahagsáföll hafi afhjúpað ákveðna veikleika í lögunum þýðir það ekki að þau séu best geymd á sorphaugum sögunnar.
Það sem seinustu ár hafa kennt okkur er einkum tvennt. Þegar vel árar þarf að tryggja að óhófleg útgjaldagleði ráði ekki för, sem erfitt getur verið að hemja þegar aðstæður versna. Þegar áföll dynja á þarf aftur á móti nægilegur sveigjanleiki að vera innbyggður í lögin til að bregðast við með fyrir fram skilgreindum hætti. Hvorugt er nægilega vel útfært í lögunum eins og þau eru í dag. Endurskoðun ætti að fara fram með þetta fyrir augum – hanna þarf fjármálareglur sem tryggja aðhaldssama stefnu á uppgangstímum, ná betur utan um áföll og marka skýrari sýn um hvernig skuli komast aftur á beinu brautina ef af henni þarf að hverfa.
Útgjaldaregla skynsamleg viðbót
Til að draga úr hvata stjórnmálamanna til að eyða hverri krónu sem aflað er á góðæristímum væri skynsamlegt að bæta útgjaldareglu við þær fjármálareglur sem þegar eru til staðar, afkomureglu og skuldareglu. Útgjaldaregla, sem myndar þak á vöxt útgjalda hins opinbera á hverjum tíma, gæti skapað það aðhald sem þarf til að koma í veg fyrir óhóflegan útgjaldavöxt. Kostir slíkrar reglu eru að hún er einföld og gagnsæ.
Þá væri óheppilegt ef frávik frá reglum byggðust um of á geðþóttamati. Vel færi á því að hanna ítarlegri flóttaákvæði (e. escape clauses) eins og mörg önnur lönd hafa gert. Ákvæðin ættu að tiltaka nákvæmlega við hvaða skilyrði stjórnvöld megi víkja tímabundið frá fjármálareglum, hver hafi vald til að virkja ákvæðin, hver tímalínan er og hvaða ferlar eru til staðar til að tryggja endurupptöku reglnanna. Best væri ef óháður aðili á borð við fjármálaráð sæi um virkjun og framkvæmd flóttaákvæða.
Útgjaldaregla, sem myndar þak á vöxt útgjalda hins opinbera á hverjum tíma, gæti skapað það aðhald sem þarf til að koma í veg fyrir óhóflegan útgjaldavöxt. Kostir slíkrar reglu eru að hún er einföld og gagnsæ.
Í ljósi þess hve illa hefur tekist að fylgja eftir lögum um opinber fjármál og þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið af stjórnmálunum skyldi athuga hvort ekki sé tilefni til að endurmeta reglurnar í ljósi reynslunnar, þannig að þær tryggi bæði ábyrga meðferð fjármuna og nauðsynlegan sveigjanleika. Eins og lánshæfismatsfyrirtæki hafa ítrekað bent á er trúverðugleiki og ábyrgð í ríkisfjármálum grundvöllur góðs lánshæfismats ríkissjóðs og þar með góðra lánskjara. Það er því hagsmunamál skattgreiðenda að skuldbinding stjórnmálanna gagnvart ábyrgum fjármálareglum sé hafin yfir allan vafa.
Höfundur er forstöðumaður efnahagssviðs SA.