Lífið

Króli komst inn í leik­listina

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Kristinn Óli Haraldsson segist spenntur fyrir komandi ævintýrum.
Kristinn Óli Haraldsson segist spenntur fyrir komandi ævintýrum. Vísir/Vilhelm

Leikarinn og tónlistarmaðurinn Kristinn Óli Haraldsson, betur þekktur sem Króli, komst inn fyrstu tilraun í leiklistarnám við Listaháskóla Íslands í dag. 

Fréttastofa náði tali af Króla fyrr í dag þegar hann var nýbúinn að fá fréttirnar. Hann segist ekki hafa búist við því að komast inn enda margir hæfileikaríkir umsækjendur: „Ég held að það búist enginn við því,“ segir hann hress.

Króli skaust upp á stjörnuhimininn með tvíeykinu JóiPé og Króli fyrir nokkrum árum en Króli segist ekki ætla að leggja tónlistina á hilluna. Leiklistin verði þó líklega „aðalfókusinn“ á næstu misserum og draumurinn sé að gera leiklistina að aðalstarfi.

„Jói er að gera frábæra sólóplötu og hann er meira að segja í sama skóla og ég. Þannig að við verðum skólabræður núna næsta haust,“ segir Króli en JóiPé, eða Jóhannes Damian Patreksson, mun leggja stund á tónsmíðar við Listaháskólann.

Króli hefur áður verið í leiklist samhliða tónlistinni en hann fór meðal annars með aðalhlutverk í söngleiknum Hlið við hlið sem frumsýndur var í Gamla bíói í fyrra. Þá var hann einnig á samningi hjá Leikfélagi Akureyrar á síðasta ári og lék í söngleik um hinn góðkunna Benedikt Búálf.

„Maður á alltaf að reyna sitt besta og láta ekkert stoppa sig. Það er kannski smá klisjukennt en það er einhver sannleikur í þessu,“ segir Króli og hlær.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.