Íslenski boltinn

Leiknir að fá danskan markakóng

Sindri Sverrisson skrifar
Mikkel Dahl hefur verið magnaður fyrir lið HB í Færeyjum síðustu tvö ár og raðað inn mörkum. Nú er hann á leið til Íslands.
Mikkel Dahl hefur verið magnaður fyrir lið HB í Færeyjum síðustu tvö ár og raðað inn mörkum. Nú er hann á leið til Íslands. Facebook/@havnarboltfelag

Leiknismenn virðast vera að landa miklum liðsstyrk fyrir komandi keppnistímabil í fótboltanum.

Danski framherjinn Mikkel Dahl, sem varð markakóngur í efstu deild Færeyja með 27 mörk í 25 leikjum síðasta sumar, verður kynntur sem nýr leikmaður Leiknis á næstunni.

Frá þessu greindi Kristján Óli Sigurðsson í nýjasta þætti Þungavigtarinnar, sem finna má á tal.is/vigtin.

Dahl er 28 ára gamall og hafði spilað með Nyköbing í næstefstu deild Danmerkur áður en hann gekk til liðs við HB Þórshöfn sumarið 2020. 

Það sumar skoraði hann 14 mörk í 13 leikjum í færeysku deildinni, eða meira en mark að meðaltali í leik, og hann hélt því svo áfram á síðustu leiktíð með 27 mörkum í 25 leikjum.

HB varð færeyskur meistari fyrra tímabilið sem Dahl lék með því og endaði í 2. sæti á síðustu leiktíð. Samningur hans við félagið er hins vegar runninn út.

Leikni vantaði markaskorara seinni hluta síðustu leiktíðar í Pepsi Max-deildinni, eftir að Sævar Atli Magnússon fór í atvinnumennsku til Danmerkur. Hann hafði þá skorað 10 mörk í 13 leikjum en var sá eini í Leikni sem skoraði meira en tvö mörk á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×