Innherji

Ríkis­sjóður ná­lægt því að taka yfir megnið af Vaðla­heiðar­göngum

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Ófyrirséðar tafir á framkvæmdum við Vaðlaheiðargöng höfðu í för með sér mikla kostnaðaraukningu.
Ófyrirséðar tafir á framkvæmdum við Vaðlaheiðargöng höfðu í för með sér mikla kostnaðaraukningu. Mynd/Vaðlaheiðargöng

Fjárhagsleg endurskipulagning Vaðlaheiðarganga er langt á veg komin samkvæmt heimildum Innherja en með því að skuldbreyta lánum sem hafa sligað rekstur ganganna frá því að opnað var fyrir umferð eignast ríkissjóður yfirgnæfandi eignarhlut.

Eignarhaldi Vaðlaheiðarganga er skipt þannig að ríkissjóður fer með 33 prósenta hlut en Greið leið ehf., fer með 66 prósenta hlut. Greið leið er í eigu allra sveitarfélaganna á Norðurlandi eystra og nokkurra fyrirtækja frá landshlutanum, til dæmis KEA og Útgerðarfélagi Akureyringa. 

Eyþór Björnsson, stjórnarformaður Greiðrar leiðar ehf., sem er meirihlutaeigandi í Vaðlaheiðargöngum á móti ríkinu, gat ekki tjáð sig um málið að svo stöddu.

Samkvæmt heimildum Innherja er unnið eftir þeirri útfærslu að lánum ríkissjóðs til Vaðlaheiðarganga, sem námu samtals 18,6 milljörðum króna í lok árs 2020, verði að miklu eða öllu leyti skuldbreytt í hlutafé þannig að ríkissjóður verði eigandi að miklum meirihluta hlutafjár, eða líkast til í kringum 90 prósentum.

Stjórnendur Vaðlaheiðarganga hafa frá því í mars 2020 verið í viðræðum við hluthafa félagsins og ríkissjóð um öflun frekari hlutafjár, lækkun vaxta í samræmi við lækkandi vaxtastig, og endurfjármögnun lánasamninga í þeim tilgangi að létta á skuldum félagsins og tryggja rekstrarhæfi þess.

Á árinu 2020 námu vaxtagjöld vegna lána frá ríkissjóði ríflega 900 milljónum króna. Gjalddagi skulda var 1. maí 2021 en ríkissjóður frestaði innheimtuaðgerðum fram yfir áramót. Ef horft er fram hjá fjármagnsliðum og afskriftum skiluðu göngin 365 milljóna króna rekstrarhagnaði á árið 2020 samanborið við 516 milljónir árið 2019.

Áhrif heimsfaraldursins á rekstur Vaðlaheiðarganga voru veruleg en sala á veggjaldi um göngin dróst saman um 27 prósent. Heildartekjur Vaðlaheiðarganga námu 495 milljónum króna á árinu 2020 samanborið við 680 milljónir árið á undan. Í síðasta ársreikningi kom hins vegar fram að umferð á fyrstu sjö mánuðum ársins 2021 hefði verið nálægt því sem var á sama tímabili 2019.

Ófyrirséðar tafir á framkvæmdum við Vaðlaheiðargöng höfðu í för með sér mikla kostnaðaraukningu, í formi framkvæmdakostnaðar og fjármagnskostnaðar, frá því sem upphaflega var áætlað en kostnaðaráætlun í upphafi hljóðaði upp á 8.730 milljónir króna á verðlagi ársins 2011. Þegar upp var staðið kostuðu göngin um 17 milljarða króna sem fengust í formi láns frá ríkissjóði.

Þá urðu tafirnar til þess að tekjuöflun félagsins í formi innheimtu veggjalda hófst rúmlega tveimur árum síðar en áætlað var. Til stóð að umferð um göngin og innheimta veggjalda hæfist á haustmánuðum 2016.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×