Erlent

Tólf þúsund olíu­tunnur láku úr olíu­hreinsunar­stöð í Perú

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Hreinsunarstarfið stendur enn yfir en aðeins þriðjungur olíunnar hefur verið hreinsaður upp.
Hreinsunarstarfið stendur enn yfir en aðeins þriðjungur olíunnar hefur verið hreinsaður upp. Getty/Klebher Vasquez

Olíuleki í Perú er sagður mun umfangsmeiri en upprunalega var gert ráð fyrir. Lekinn er sagður náttúruharmleikur en milljónir sjávardýra og fugla hafa dáið frá því að lekinn varð.

Tæplega tólf þúsund olíutunnur láku í sjóinn út frá ströndum Perú þann 15. janúar síðastliðinn þegar tankskip La pampilla olíuhreinsunarstöðvarinnar varð fyrir flóðbylgju, sem talin er hafa myndast í kjölfar neðarsjávareldgossins á Tonga í Kyrrahafi. 

Hreinsunarstöðin er um 30 kílómetra norður af höfuðborginni Líma og er í eigu spænska olíufélagsins Repsol. 

Perúsk yfiröld hafa krafið félagið um bætur og ríkissaksóknari Perú hefur hafið rannsókn á Repsol vegna slyssins. Dómari úrskurðaði í gær fjóra stjórnendur hjá Repsol í átján mánaða farbann vegna rannsóknarinnar. 

Repsol sagði í samtali við fréttastofu AFP í gær að það myndi gera allt sem það gæti til að hjálpa til við rannsóknina og hefði þegar afhent einhver gögn. Aðalmálið væri þó að hreinsa upp olíuna úr náttúrunni og að Repsol væri að gera allt sem í valdi þess stæði til að hreinsunin gangi sem best. 

Þegar fyrst var greint frá olíulekanum var talið að olían sem hefði lekið næmi sex þúsund olíutunnum. Eftir nánari athugun greindi Repsol frá því að magnið væri líklega nær 10.400 tunnum en yfirvöld greindu í gær frá því að í raun hafi það verið 11.900 tunnur. 

Um þriðjungur olíunnar sem lak hefur verið hreinsaður upp. Sjómenn af svæðinu hafa haldið mótmæli þar sem þeir hafa ekki getað stundað atvinnu sína frá því að lekinn varð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×