Körfubolti

Sigurður hafði betur gegn ÍR í Landsrétti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigurður Gunnar Þorsteinsson í leik með ÍR.
Sigurður Gunnar Þorsteinsson í leik með ÍR. Vísir/Vilhelm

Landsréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Sigurður Gunnars Þorsteinssonar gegn Körfuknattleiksdeild ÍR.

Þann 17. nóvember 2020 var Körfuknattleiksdeild ÍR dæmd til að greiða Sigurði tæpar tvær milljónir króna auk dráttarvaxta vegna vangoldinna launa.

Eftir stutta dvöl í Frakklandi gekk Sigurður aftur í raðir ÍR haustið 2019 og skrifaði undir tveggja ára samning við félagið. Hann meiddist í fyrsta leik sínum með ÍR, gegn Hetti, og missti af þeim sökum af öllu tímabilinu 2019-20.

Vorið 2020 rifti ÍR samningi Sigurðar en félagið ákvað að greiða honum ekki laun þar sem það taldi hann ekki hafa uppfyllt sinn hluta samningsins. Sigurður höfðaði mál á hendur ÍR og krafði félagið um tvær milljónir króna vegna vongoldina launa. 

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Sigurði í hag og ÍR þurfti að greiða honum tæpar tvær milljónir króna auk dráttarvaxta eins og áður sagði.

ÍR-ingar áfrýjuðu úrskurðinum til Landsréttar en hann staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í dag. ÍR þarf að greiða Sigurði 1.866.000 krónur auk dráttarvaxta. Þá ber stefnda að greiða stefnanda 800 þúsund krónur í málskostnað.

Dóminn má nálgast á heimasíðu Landsréttar, eða með því að smella hér.

Sigurður leikur í dag með Tindastóli á Sauðárkróki. Á síðasta tímabili lék hann með Hetti á Egilsstöðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×