Erlent

Stefna á að aflétta öllum takmörkunum síðar í mánuðinum

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti þingmönnum að það gæti vel verið að öllum takmörkunum yrði aflétt fyrr.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti þingmönnum að það gæti vel verið að öllum takmörkunum yrði aflétt fyrr. Getty/Rasid Necati Aslim

Mögulegt er að öllum takmörkunum vegna Covid verði aflétt síðar í þessum mánuði að sögn Boris Johnsons, forsætisráðherra Bretlands, en það er mánuði á undan áætlun. Þannig yrði meðal annars einangrun vegna Covid smits afnumin.

Að því er kemur fram í frétt BBC eru núverandi takmarkanir í gildi til 24. mars en þar er meðal annars kveðið á um í hið minnsta fimm daga einangrun greinist einstaklingur smitaður.

Í fyrirspurnartíma innan breska þingsins í dag sagði Johnson að það kæmi vel til greina að aflétta fyrr í ljósi gagna um jákvæða þróun faraldursins.

Þá sagðist Johnson reikna með því að kynna afléttingaráætlun eftir að þingið kemur saman þann 21. febrúar eftir stutt þinghlé, að því gefnu að gögnin sýni áfram fram á jákvæða þróun.

Meðal annarra takmarkanna sem eru í gildi eru grímuskylda innan heilbrigðisstofnanna, í almenningssamgöngum og víðar, auk þess sem fólk þarf að framvísa bólusetningarvottorði til að sækja ákveðna viðburði.

Alls greindust rúmlega 66 þúsund smitaðir af veirunni í Bretlandi í gær og létust 314 vegna Covid.


Tengdar fréttir

Engar sýnatökur fyrir fullbólusetta ferðalanga

Frá 11. febrúar munu fullbólusettir einstaklingar ekki þurfa að fara í sýnatöku við komuna til Englands. Fyrr í mánuðinum var ákveðið að hverfa frá kröfu um sýnatöku fyrir komuna til landsins. Samgönguráðherra Bretlands segir breytinguna stórt skref. 

Jákvæð teikn á lofti í Lundúnum, New York og víðar

Svo virðist sem að hægja sé á smitum sums staðar í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hin margumrædda kúrfa er að fletjast út í Lundúnum, suðaustur- og austurhluta Englands og hægt hefur á greiningum í norðurhluta landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×