Kvöldið hófst um klukkan 17.30 þegar einstaklingur gaf sig fram á lögreglustöð og sagðist hafa orðið fyrir líkamsárás. Ekkert fleira stendur um atvikið í samantekt úr dagbók lögreglu en um klukkan 19.30 var tilkynnt um aðra líkamsárás í póstnúmerinu 111 og í því tilviki var þolandinn fluttur á Landspítalann til aðhlynningar.
Upp úr klukkan 23 barst þriðja beiðni kvöldsins um aðstoð vegna líkamsárásar og hótana og þá var tilkynnt um fjórðu líkamsárás í póstnúmerinu 105 hálftíma seinna en í því tilviki var gerandi handtekinn á vettvangi og vistaður í fangageymslu.
Lögregla og sjúkrabifreið voru einnig kölluð út að veitingastað rétt fyrir klukkan 19 þar sem starfsmaður hafði slasað sig. Lögregla kannaði aðstæður á vettvangi og skýrsla verður rituð um málið.
Þá var einstaklingur handtekinn rétt fyrir klukkan 22 fyrir að hafa í hótunum og fara ekki að fyrirmælum lögreglu. Hann var vistaður í fangageymslu. Annar var síðan handtekinn rétt fyrir klukkan 1 í nótt fyrir að hafa í hótunum í póstnúmerinu 107.
Lögregla hafði einnig afskipti af manni sem svaf í bifreið en hann reyndist vera með fíkniefni í fórum sínum. Þá var annar ökumaður stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum en sá reyndi að ljúga til um nafn og reyndist hafa verið sviptur ökuréttindum sínum.