Íslenski boltinn

Damir skilaði sér of seint heim á hótel og fékk ekki að spila

Sindri Sverrisson skrifar
Damir Muminovic segir að leikirnir í Portúgal muni gagnast Blikum í sumar. Hann fékk þó ekki sjálfur að spila þá alla.
Damir Muminovic segir að leikirnir í Portúgal muni gagnast Blikum í sumar. Hann fékk þó ekki sjálfur að spila þá alla. Hafliði Breiðfjörð

Damir Muminovic, miðvörðurinn sterki í knattspyrnuliði Breiðabliks, fékk ekki að taka þátt í þriðja og síðasta leik liðsins á Atlantic Cup æfingamótinu á Algarve í Portúgal.

Damir greindi frá því í viðtali við Blikar TV að hann hefði gerst sekur um brot á reglum þegar hann skilaði sér of seint heim á hótel. Hann lék því ekki í 4-3 tapinu gegn FC Kaupmannahöfn á föstudaginn.

Hann hafði áður spilað í 2-1 sigrinum gegn B-liði enska úrvalsdeildarfélagsins Brentford og í sigrinum gegn danska stórliðinu Midtjylland, þar sem úrslitin réðust í vítaspyrnukeppni eftir 3-3 jafntefli.

„Svo hefði maður auðvitað vilja spila þriðja leikinn líka en ég var kominn aðeins seint heim á frídegi og tek fulla ábyrgð á því, og bara áfram gakk,“ sagði Damir við Blikar TV en viðtalið má sjá hér að neðan.

Blikar hefja keppni í deildabikarnum, eða Lengjubikarnum, 25. febrúar með leik við ÍA. Fyrsti leikur þeirra á Íslandsmótinu er gegn Keflavík 19. apríl en í nógu verður að snúast fyrir Blika í sumar þar sem þeir leika einnig í Evrópukeppni, og Damir segir ferðina til Portúgals koma til með að nýtast liðinu vel:

„Ég held það. Maður er að fá alvöru leiki á þessu móti og þegar maður kemur svo heim er farið að styttast í mót. Þá byrjar alvaran á fullu. Ég held að þetta hjálpi okkur heilmikið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×