Enski boltinn

Swindon Town leitar að sex ára gömlum strák sem á ekkert en gaf samt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hér má sjá ungan stuðningsmann Swindon Town mæta á völlinn fyrir bikarleik á móti Englandsmeisturum Manchester City í síðasta mánuði.
Hér má sjá ungan stuðningsmann Swindon Town mæta á völlinn fyrir bikarleik á móti Englandsmeisturum Manchester City í síðasta mánuði. Getty/Michael Regan

Ungur stuðningsmaður enska knattspyrnuliðsins Swindon Town elskar uppáhaldsleikmanninn sinn það mikið að hann var tilbúinn að gefa honum það litla sem hann á.

Joe er sex og hálfs árs strákur sem sendi Swindon Town bréf. Þar kemur fram að mamma hans hafi ekki efni á að kaupa miða á leiki liðsins enda eigi hún ekki fyrir mat ofan í fjölskylduna. 

Swindon Town spilar í ensku D-deildinni og er þar í harðri baráttu um að komast í úrslitakeppnina. Félagið var síðast í ensku úrvalsdeildinni tímabilið 1993-94 en féll úr C-deildinni í fyrra.

Joe lét 26 penní fylgja með bréfinu og þau áttu að fara til Harry McKirdy, 24 ára framherji liðsins. McKirdy hefur skorað 10 mörk í 19 deildarleikjum á tímabilinu og er í miklu uppáhaldi hjá hinum sex ára Joe.

Swindon Town birti bréfið og það vakti mikla athygli á samfélagsmiðlum. Um leið reyndu forráðamenn félagsins að hafa uppi á stuðningsmanninum sem var tilbúinn að gefa pening þrátt fyrir að lifa í svo mikilli fátækt.

Félagið vill hjálpa Joe og fjölskyldu hans með söfnun sem er þegar hafin. JustGiving síða hefur þegar safnað þúsund pundum og upphæðin á örugglega eftir að hækka mikið.

Verkefnið er að hafa uppi á Joe sem hefur slegið í gegn. Ljóst er að margir eru tilbúnir að hjálpa honum og fjölskyldu hans.

Swindon er 186 þúsund manna borg í suðvesturhluta Englands í um 114 kílómetra fjarlægð vestur af London.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×