B-listi Sólveigar Önnu vann öruggan sigur í formanns- og stjórnarkjöri Eflingar með 52 prósentum atkvæða. A-listi uppstillingarnefndar félagsins með Ólöfu Helgu Adolfsdóttur starfandi varaformann í framboði til formanns hlaut 37 prósent atkvæða og C-listi Guðmundar Baldurssonar stjórnarmanns í Eflingu fékk 8 prósent. Sólveig Anna segist hafa búist við sigri í kosningunum.

„Ég og félagar mínir á Baráttulistanum vorum mjög sigurviss vegna þess að að það fólk sem við vorum í samskiptum við, þeir félagsmenn sem við áttum samtal við, vildu liðsinna okkur í þessari baráttu. Þannig að já, við bjuggumst við því að vinna,“ segir Sólveig Anna.
Kjörsókn var rétt rúmlega fimmtán prósent en hún var um svipuð þegar Sólveig Anna var fyrst kjörin formaður árið 2018. Hún fagnar því að félagsfólk hafi í annað sinn í sögu félagsins fengið tækifæri til að kjósa um forystu í félaginu og hafa þannig áhrif á hver leiði kjarabaráttu þess og getað valið um þrjá lista. Staðan innan félagsins að undanförnu gæti hafa haft áhrif á kjörsóknina.
„Væntanlega útskýrist aukin kjörsókn af því að fólk hefur áhuga á hvað er að gerast í félaginu þeirra. Vill beita sér og taka þátt. Það er gott,“ segir nýendurkjörinn formaður.
Ekki liggur fyrir hvenær stjórnarskipti geta átt sér stað á aðalfundi sem fyrirhugað er að halda öðru hvoru megin við páska í apríl. Sólveig Anna segir hana og félaga hennar bíða eftir ákvörðun trúnaðarráðs hvað þetta varði en séu þegar byrjuð að undirbúa sig. Hins vegar væri mikilvægt að halda aðalfund sem fyrst.
„Það er heimild til þess í lögum að halda aukaaðalfund sé brýn ástæða til þess. Ég held að þetta geti sannanlega flokkast sem brýn ástæða. Þannig að ég vona að það verði niðurstaðan. En ég auðvitað bara bíð sæmilega róleg eftir því að fá að heyra hvað gerist,“ segir Sólveig Anna.
Mikilvægst væri að ný forysta geti sem allra fyrst byrjað að móta kröfugerð fyrir komandi kjarasamninga.
Hvernig muntu nálgast starfsfólk þegar þu kemur aftur inn á skrifstofuna?
„Já, þetta er bara áhugaverð spurning. Á þessum tímapunkti tel ég náttúrlega kannski nær að spyrja hvernig starfsfólk hafi hugsað sér að nálgast nýkjörinn formann. Sem kemur þarna með lýðræðislegt umboð félagsfólks til að stýra félaginu.
Þannig að viðskulum bara sjá hvað setur,“ segir Sólveig Anna.
Treystir Viðari til góðra starfa
Sólveig Anna sagði af sér formennsku í Eflingu í lok október þegar starfsfólk skrifstofu félagsins varð ekki við ósk hennar um stuðningsyfirlýsingu. Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri félagsins sagði strax eftir það upp störfum hjá félaginu. Sólveig Anna segir það ekki hennar að ákveða hvort Viðar komi aftur til starfa.
„Það er stjórnar að ákveða hvaða fólk er ráðið til að gegna mikilvægum störfum á vettvangi félagsins,“ segir hún.
Muntu leggja það til?
„Ég treysti Viðari mjög vel. Hann er minn góði félagi. Hefur sýnt það og sannað í kjarabaráttu verka- og láglaunafólks að hann er lykilmaður í henni. Ég treysti Viðari en aftur segi ég að það er ekki mitt að svara því hér á þessum tímapunkti heldur er það stjórnar að ákveða hvað gerist,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir.