Þetta má lesa út úr nýjum uppfærðum lista yfir helstu hluthafa Icelandair en sjóðurinn – Akta Stokkur – fer í dag með 437 milljónir hluta að nafnvirði, sem jafngildir 1,21 prósenta eignarhlut, en fyrir söluna var hann áttundi stærsti hluthafinn með 1,85 prósenta hlut.
Ætla má að hlutabréfasjóðurinn hafi selt bréfin í síðustu viku fyrir samtals um 500 milljónir króna – hlutabréfaverðið var á þeim tíma í kringum 2,2 krónur á hlut – en markaðsvirði eftirstandandi eignarhlutur Akta Stokks er í dag tæplega einn milljarður króna.
Ljóst er sjóðurinn innleysir talsverðan hagnað við þá sölu í Icelandair en þegar Akta Stokkur hóf að fjárfesta í flugfélaginu í byrjun desember á liðnu ári – hann keypti samtals 1,5 prósenta hlut í þeim mánuði – þá stóð gengið í um 1,6 krónur á hlut. Á sama tíma hann fór að beina sjónum sínum að Icelandair þá voru þrír sjóðir í stýringu Akta að minnka verulega við hlut sinn í Play, helsta keppinaut félagsins. Eignarhlutur sjóðanna – Stokkur, HL1 og HS1 – er í dag um sex prósent en þegar mest var í september í fyrra var Akta stærsti einstaki hlutinn með um 13 prósenta hlut.
Nýr listi yfir tuttugu stærstu hluthafa Icelandair sýnir einnig að sjóður í stýringu bandaríska vogunarsjóðsins Stone Forest Capital hefur minnkað lítillega hlut sinn í síðustu viku með sölu á 42 milljónum hluta að nafnvirði og nemur eignarhlutur hans í 1,32 prósenti. Þetta er í annað sinn á nokkrum vikum sem sjóðurinn, sem hefur einnig meðal annars fjárfest í suður-kóreska flugfélaginu Korean Air, selur í Icelandair. Hann kom fyrst inn í hluthafahópinn í júlí í fyrra með kaupum á um 1,4 prósenta hlut fyrir samtals m 650 milljónir króna á þeim tíma.
Þá seldi Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda einnig um fimmtung bréfa sinna í Icelandair og fer núna með samtals 383 milljónir hluta að nafnvirði, sem jafngildir 1,06 prósenta eignarhlut.
Samhliða því að Akta, Stone Forest Capital og Söfnunarsjóðurinn voru að minnka við hlut sinn í Icelandair á liðinni viku þá jókst hlutur sem er skráður á Arion banka úr 3 prósentum í 4 prósent. Það eru bréf sem ætla má að bankinn haldi á að stærstum hluta vegna framvirkra samninga sem hann hefur gert við viðskiptavini sína.
Á fjórða ársfjórðungi nam tap Icelandair 5 milljörðum króna, og minnkaði það um 5,6 milljarða á milli ára, en samtals flutti félagið þá um 545 þúsund farþega. Heildartap fyrir árið 2021 var hins vegar 13 milljarðar króna og tekjur Icelandair voru samtals 75 milljarðar. Áætlanir gera ráð fyrir að framlegðarhlutfall (EBIT) verði jákvætt um 3 til 5 prósent á þessu ári.
Markaðsvirði Icelandair stendur í dag í 81 milljarði króna. Langsamlega stærsti hluthafi félagsins er eftir sem áður Bain Capital, með tæplega 16 prósenta hlut en aðrir helstu eigendur Icelandair eru Brú lífeyrissjóður, Gildi og LSR.