Innherji

Væntingar um virði Tempo ýta gengi Origo upp í hæstu hæðir

Hörður Ægisson skrifar
Origo fer með rúmlega 40 prósenta hlut í hugbúnaðarfélaginu Tempo sem hefur vaxið árlega um tugi prósenta og velti nærri 6 milljörðum í fyrra.
Origo fer með rúmlega 40 prósenta hlut í hugbúnaðarfélaginu Tempo sem hefur vaxið árlega um tugi prósenta og velti nærri 6 milljörðum í fyrra. Vísir/Vilhelm

Hlutabréfaverð Origo hefur rokið upp um 23 prósent eftir að upplýsingatæknifyrirtækið birti ársuppgjör sitt fyrir aðeins tveimur vikum síðan. Markaðsvirði félagsins, sem er á meðal þeirra minnstu á aðalmarkaði Kauphallarinnar, hefur á þeim tíma hækkað um nærri 7 milljarða króna og nemur nú rúmlega 35 milljörðum.

Hvað skýrir þessar miklu verðhækkanir á undanförnum dögum?

Viðmælendur Innherja á markaði segja að þar ráði mestu væntingar fjárfestar um að virði félagsins Tempo, sem er að stórum hluta í eigu Origo, sé umtalsvert hærra en áður hafi verið talið, jafnvel mögulega meira en markaðsvirði allrar Origo-samstæðunnar í dag. Nýleg verðmöt sem hafa verið framkvæmd gefa af þessum sökum til kynna að upplýsingatæknifyrirtækið sé þannig verulega undirverðlagt á markaði um þessar mundir.

Tekjur Tempo jukust um 39 prósent í fyrra og voru samtals 45 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 5,6 milljarðar íslenskra króna, en sú velta inniheldur ekki félögin Roadmunk og ALM Works sem Tempo keypti á síðasta ársfjórðungi 2021. Áætla má að sameinuð félög hafi velt yfir 80 milljónum dala í fyrra.

Fram kom í máli Jóns Björnssonar, forstjóra Origo á uppgjörsfundi félagsins í byrjun þessa mánaðar, að Tempo hafi líklega átt „einn [sinn] mest spennandi ársfjórðung“ undir lok síðasta árs og að reksturinn hafi „gengið frábærlega“ á árinu 2021. Þá nefndi hann að fjárfesting Origo í Tempo sé á „spennandi tímamótum“ og það væri búið að vera „lærdómsríkt að fylgjast með félaginu í gegnum verulega stækkun“ en starfsmannafjöldi Tempo er kominn hátt í 200 með starfsemi í fimm borgum.

Eignarhlutur Origo í Tempo, sem er í grunninn íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki stofnað árið 2009 af starfsfólki TM Software, er í dag 40,4 prósent en í árslok 2018 seldi Origo meirihluta í félaginu til bandaríska sjóðsins Diversis Capital. Var heildarvirði Tempo í þeim viðskiptum 62,5 milljónir dala, jafnvirði um 8 milljarða króna.

Að sögn þeirra sem þekkja vel til má áætla hvert sé mögulegt virði eignarhlutar Origo í Tempo út frá tekjumargfaldara en algengt er að slík hugbúnaðarfyrirtæki, einkum þau sem eru farin að skila jákvæðri framlegð eins og í tilfelli Tempo, séu metin á bilinu 8 til 12 sinnum tekjur þeirra.

Miðað við þær forsendur, eins og Innherji hefur áður fjallað um, gæti Tempo verið verðmetið á samtals um 56 milljarða íslenskra króna ef notaður er tekjumargfaldari upp á 10 en félagið skilaði sem fyrr segir 5,6 milljörðum í tekjur í fyrra. Hlutur Origo væri þá samkvæmt þessari sviðsmynd metinn á 23 milljarða króna. Ef litið sé hins vegar til veltu sameinaðra þriggja félaga (Tempo, Roadmunk og ALM) – hún var samtals ríflega 80 milljónir dala í fyrra – með sama tekjumargfaldara þá gæti ríflega 40 prósenta hlutur Origo í Tempo verið yfir 40 milljarða króna virði.

Í árslok 2021 var eignarhlutur Tempo bókfærður á aðeins tæplega 4 milljarða króna í reikningum Origo. Félagið gæti því hugsanlega innleyst mikinn hagnað þegar eftirstandandi hlutur, eins og fastlega er gert ráð fyrir, verður seldur í fyllingu tímans.

Samkvæmt upplýsingum Innherja hafa nýleg óopinber verðmöt sem hafa verið framkvæmd eftir birtingu uppgjörs Origo fyrir tveimur vikum leitt í ljós verðmatsgengi á félaginu upp á um 130 krónur á hlut. Við lokun markaða í dag stóð hlutabréfaverðið í 81 krónu á hlut og er slíkt verðmatsgengi því um 60 prósentum hærra en núverandi markaðsgengi Origo.

Eftir að ársuppgjör Origo lá fyrir hafa einnig birst tvær flagganir í Kauphöllinni vegna kaupa tveggja framkvæmdastjóra á bréfum í félaginu fyrir samtals um 20 milljónir króna. Þá kom einnig fram í flöggun í fyrradag að Stefnir væri búið að bæta nokkuð við hlut sinn í Origo og að sjóðir í stýringu félagsins ættu nú samanlagt tæplega 5,8 prósenta eignarhlut.

Stærstu hluthafi Origo er Lífeyrissjóður verslunarmanna með nærri 13,3 prósenta hlut en þar á eftir koma Birta og Akta sjóðir.


Tengdar fréttir

Tempo festir kaup á Roadmunk

Tempo, dótturfélag Origo, hefur fest kaup á hugbúnaðarfyrirtækinu Roadmunk Inc. Félagið þróar samnefndan hugbúnað sem hjálpar fyrirtækjum að byggja upp, hanna og miðla stefnu fyrir hugbúnaðarvörur með sjónrænum hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×