Erlent

Leið­togar mót­mælanna í Kanada hand­teknir

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Tamara Lich og Chris Barber, sem lögreglan í Kanada telur leiðtoga mótmælanna, hafa verið handtekin.
Tamara Lich og Chris Barber, sem lögreglan í Kanada telur leiðtoga mótmælanna, hafa verið handtekin. EPA-EFE/ANDRE PICHETTE

Lögreglan í kanadísku höfuðborginni Ottawa hefur handtekið tvo einstakling sem sagðir eru leiðtogar mótmælanna sem verið hafa í borginni síðustu vikur.

Mótmælin hafa lamað samgöngur í borginni en uppistaða mótmælenda eru vörubílstjórar sem upphaflega mótmæltu bólusetningarskyldu á landamærunum að Bandaríkjunum. Þau undu svo upp á sig og snerust upp í allsherjar mótmæli gegn ríkisstjórninni í landinu og forsætisráðherranum Justin Trudau. 

Tamara Lich var handtekin í gærkvöldi og áður hafði Chris Barber verið hnepptur í varðhald. Búist er við að þau verði ákærð fyrir ýmiskonar brot. 

Mótmæli höfðu brotist út víðar í landinu og á dögunum var neyðarástandi lýst yfir. Í kjölfarið á því fóru lögreglumenn í það að leysa upp mótmælin og var hópurinn í Ottawa sá síðast í röðinni. Vonast lögregla til þess að handtökur forsprakkanna leiði til þess að hópurinn tvístrist.

Mótmælendur, sem margir hverjir hafa haldið fyrir í um fjögur hundruð vöruflutningabílum, sem lagt hefur verið í kring um kanadíska þinghúsið, hafa verið varaðir við því af lögreglu að hætti þeir ekki verði þeir handteknir og hald lagt á vörubíla þeirra, tryggingar þeirra látnar falla niður og bankareikningar þeirra frystir. 

Þá er lögreglan að vinna að því í samstarfi við barnavernd að fjarlægja börn mótmælenda af vettvangi áður en lögregluaðgerðir hefjast. 


Tengdar fréttir

Munu geta fryst banka­reikninga mót­mælenda

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, hefur veitt yfirvöldum auknar heimildir til að reyna að bæla niður þau mótmæli gegn bólusetningarskyldu sem staðið hafa í landinu síðustu vikur. Þetta er í fyrsta skipti sem forsætisráðherra Kanada virkjar ákvæði sérstakra neyðarlaga með þessum hætti.

Segir Íslendinga standa á krossgötum þar sem Kanada er víti til varnaðar

Hjúkrunarfræðingur í framhaldsnámi í Kanada segir stöðuna þar í landi vera á suðupunkti vegna mótmæla en þau beinast í auknum mæli gegn heilbrigðisstarfsmönnum. Hún telur mikilvægt að Ísland fari ekki sömu leið og Kanada hefur gert og segir mikilvægt að landsmenn finni samstöðuna á ný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×