Erlent

Vilja að styttu af Leópold konungi verði breytt í minnisvarða um kongósk fórnarlömb

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Sérstök nefnd hefur lagt til að þessari styttu af Leópold II verði breytt í minnisvarða um kongósk fórnarlömb hans.
Sérstök nefnd hefur lagt til að þessari styttu af Leópold II verði breytt í minnisvarða um kongósk fórnarlömb hans. Getty/ Jean-Christophe Guillaume

Nefnd á vegum borgarstjórnarinnar í Brussel hefur lagt það til að bronsstyttu af Leópold II, Belgakonungi, verði brædd og henni breytt í minnisvarða um milljónirnar sem fórust á valdatíma hans í belgísku Kongó. 

Nefndin er skipuð sagnfræðingum, arkítektum og fleiri sérfræðingum en hún lagði til tvær breytingar um styttuna, sem reist var á 19. öld: Annars vegar að hún verði brædd og henni breytt í fyrrnefndan minnisvarða og að opnaður verði styttugarður þar sem styttan af Leópold og fleiri umdeildar styttur verða geymdar og fólk frætt um nýlendutíð Belgíu og allt sem henni fylgdi.

Tillögurnar koma fram í rúmlega 250 blaðsíðna skýrslu nefndarinnar sem skipuð var til að afnýlenduvæða almenningssvæði í Brussel. Nefndin var skipuð í kjölfar mótmæla í borginni sumarið 2020, sem hófust vegna Black Lives Matter mótmælanna í Bandaríkjunum sama sumar. 

Styttan af Leópold konungi er staðsett í miðborg Brussel nærri konungshöllinni og varð miðpunktur mótmælanna. Mótmælin þetta sumar voru þau stærstu í Brussel þar sem kynþáttafordómum og -mismunun hefur verið mótmælt. 

Víða í Brussel má finna minnisvarða um nýlendutíð Belga. Belgar voru í hópi þeirra þjóða sem kepptist um yfirráðasvæði í Afríku á nítjándu öld. Leópold II stjórnaði Kongó, eins og léni, á árunum 1885 til 1908 en milljónir Kongóbúa létust af hendi nýlenduherranna, af sulti eða sjúkdómum.  

Árið 1908 tók belgíska ríkið við yfirráðum yfir Kongó og stjórnaði því til ársins 1960. Á tímabilinu tók belgíska ríkið við stjórn Rúanda og Búrúndí, eftir að Þýskaland afhenti nýlendurnar í kjölfar fyrri heimsstyrjaldar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×