Enski boltinn

Búið að finna stuðningsmennina sem köstuðu hlutum í Elanga

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Stuðningsmenn Leeds sem köstuðu hlutum inn á völlinn eiga yfir sér lífstíðarbann frá leikjum félagsins.
Stuðningsmenn Leeds sem köstuðu hlutum inn á völlinn eiga yfir sér lífstíðarbann frá leikjum félagsins. Laurence Griffiths/Getty Images

Forsvarsmenn enska knattspyrnufélagsins Leeds United segja að þeir séu búnir að finna sökudólgana sem köstuðu hlutum inn á völlinn er leikmenn Manchester United fögnuðu marki gegn liði þeirra á sunnudaginn.

Hinn 19 ára Anthony Elanga, leikmaður Manchester United, fékk fljúgandi hlut í höfuðið þegar liðið fagnaði þriðja marki sínu í 4-2 sigri gegn erkifjendunum í Leeds.

Forsvarsmenn Leeds segja að upptaka af öryggismyndavélum sýni stuðningsmennina sem köstuðu hlutunum, og að upptökunni hafi verið komið til lögreglunnar í Vestur-Jórvíkurskíri. Lögreglan hefur nú þegar handtekið níu manns í tengslum við leikinn.

„Þetta fólk er ekki fulltrúar okkar dygga aðdáendahóps,“ segir í yfirlýsingu frá Leeds.

„Það er ekki hægt að fela sig frá þeirri staðreynd að þetta er ekki í fyrsta skipti sem atvik sem þetta kemur upp á Elland Road á þessu ári,“ segir enn fremur í yfirlýsingunni.

„Þetta fólk á ekki aðeins yfir höfði sér sakamálakæru, heldur verða þau bönnuð frá leikjum Leeds á meðan að rannsókn stendur yfir. Þau eiga síðan yfir höfði sér lífstíðarbann frá leikjum ef þau verða dæmd sek í þessu máli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×