Rússland hóf allsherjar innrás í Úkraínu í gærmorgun, af landi, úr lofti og af sjó, í kjölfar þess að Vladimír Pútín Rússlandsforseti lýsti yfir stríði. Talið er að hundrað þúsund hafi flúið heimili sín frá því að sprengjur tóku að falla í mörgum helstu borgum Úkraínu. Hátt í 140 Úkraínumenn eru taldir af.
Yfirvöld í Úkraínu og Bandaríkjunum segja að markmið Rússlands sé að ná Kænugarði á sitt vald og að hrekja ríkisstjórnina frá völdum, sem Pútín líti á sem leppstjórn Bandaríkjanna. Pútín staðfesti það sjálfur í ræðu sinni í gær.
Rússneskar hersveitir náðu í gær gamla kjarnorkuverinu Tsjernóbíl á sitt vald en það er staðsett rétt norður af Kænugarði. Hersveitirnar, sem náð hafa Tsjernóbíl, halda nú til Kænugarðs en þær réðust inn í landið í gegn um landamæri Hvíta-Rússlands í norðri, sem er systa leiðin frá landamærunum að Kænugarði.
„Óvinurinn hefur gert mig að helsta skotmarki sínu,“ sagði Selenskíj í ávarpi sem hann flutti í gærkvöldi.
„Fjölskyldan mín er næsta skotmark. Þeir vilja eyðileggja stjórnmál Úkraínu með því að fella þjóðhöfðingjann,“ sagði hann og bætti við: „Ég mun halda kyrru fyrir í höfuðborginni. Fjölskyldan mín er líka í Úkraínu.“
Pútín sagði í ávarpi í gærmorgun að Rússland væri nú í „sérstakri hernaðaraðgerð“ til þess að stöðva yfirvöld í Úkraínu og þjóðarmorðið sem þau hafi framið gegn þjóð sinni, sem er ásökun sem vesturveldin segja enga stoð eiga í raunveruleikanum. Þá hefur hann lýst því yfir að hann líti ekki á Úkraínu sem fullvalda ríki og að landið sem Úkraína sé á sé í raun eign Rússlands.