Íslenski boltinn

Ólafur Kristjáns ráðinn til Breiðabliks

Sindri Sverrisson skrifar
Flosi Eiríksson, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks, og Ólafur Kristjánsson handsala samninginn um að Ólafur gerist yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu.
Flosi Eiríksson, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks, og Ólafur Kristjánsson handsala samninginn um að Ólafur gerist yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu. blikar.is

Ólafur Kristjánsson, sem stýrði karlaliði Breiðabliks þegar það varð Íslandsmeistari í fótbolta í fyrsta og eina sinn árið 2010, hefur verið ráðinn yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu.

Ólafur mun vinna náið með þjálfurum og fleira starfsfólki Breiðabliks og bera ábyrgð á langtíma stefnumótun, þróun leikmanna og frekari uppbyggingu innra starfs knattspyrnudeildar félagsins, að því er segir í frétt á heimasíðu Blika.

Flosi Eiríksson formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks segir „Við erum feykilega spennt fyrir þessari ráðningu, með henni erum við að halda áfram að efla faglegt starf og framþróun innan knattspyrnudeildarinnar. Ólafur mun vinna náið með þjálfurum og starfsfólki og styðja enn frekar við það frábæra starf sem unnið hefur verið undanfarin ár innan deildarinnar og gera gott félag enn betra.“

Ætlað að efla afreksstarfið karla- og kvennamegin

Ólafur þjálfaði síðast lið Esbjerg í Danmörku en hefur einnig þjálfað dönsku liðin Randers og Nordsjælland, og FH, Breiðablik og Fram hér á landi. Hann fagnar því að snúa aftur til Kópavogsfélagsins þar sem hann stýrði karlaliði Breiðabliks á árunum 2006-2014:

„Ég er að koma inn í frábært félag þar sem hefur verið unnið virkilega gott starf á undanförnum árum. Ég tel mig þekkja klúbbinn vel og hef átt frábærar stundir sem þjálfari hjá klúbbnum á árum áður. Nú er ég hins vegar í öðru hlutverki og mun leggja mig allan fram um að byggja ofan á það góða starf sem nú þegar hefur verið unnið innan deildarinnar í samvinnu við starfsmenn og þjálfara. Hlutverkið er m.a. að marka stefnuna til lengri tíma og styrkja grunnþjónustuna og afreksstarfið bæði karla og kvennamegin,“ segir Ólafur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×