Skoðun

Tölum fyrir friði og mann­úð

Drífa Snædal skrifar

„Okkar helst von er einfaldlega þrá manneskjunnar eftir friði, fyrirlitning hennar á stríði, skynsemi hennar.“ - Olof Palme 1984

Í gær laut skynsemin í lægra haldi fyrir stríði þegar Pútín réðist inn í Úkraínu. Eins og alltaf græða fáir á stríði en hörmungarnar sem fylgja falla í skaut almennings sem þráir frið og fyrirlítur stríð. Við sem erum alin upp á tímum kalda stríðsins þekkjum orðfærið of vel, bæði af hálfu Rússa en líka það sem sumir á Vesturlöndum bregða nú fyrir sig. Við þekkjum þetta handrit en þekkjum líka mikilvægi baráttunnar fyrir friði og afvopnun. Sú barátta er alþjóðleg og hefur oft átt sér skjól í hinni alþjóðlegu verkalýðshreyfingu.

Norræna verkalýðshreyfingin, sem ASÍ er hluti af, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem innrásin er fordæmd og hvatt er til samstöðu með almenningi og vinnandi fólki í Úkraínu. Sama hafa bæði Evrópusamtök verkalýðsfélaga (ETUC) og Alþjóðasamband verkalýðsfélaga (ITUC) gert. Þess er krafist að alþjóðalög, mannréttindi og lýðræði séu virt og minnt á að verkalýðshreyfingin stendur með almenningi og launafólki í Úkraínu. Minnt er á að Evrópuríki þurfi að vera tilbúin að axla ábyrgð gagnvart öllu því fólki sem nú hrekst á flótta frá heimilum sínum. Enn fremur krefjast bæði ITUC og ETUC þess að viðskiptaþvingunum sé beitt markvisst gegn Pútín og hans meðreiðarsveinum og að komið sé í veg fyrir að almenningur og launafólk verði harkalegast fyrir barðinu á slíkum refsiaðgerðum. Í þessu sambandi má efast um þær aðgerðir sem bæði Evrópusambandið og Bandaríkin hafa boðað en þær þykja ekki líklegar til að draga nokkuð máttinn úr stjórnvöldum í Moskvu.

Heimurinn fer stöðugt minnkandi, samfélagsmiðlar hafa máð út landamæri í samskiptum og fólksflutningar milli landa hafa gert það að verkum að við þekkjum fólk víðar að, vinnum með fólki af ólíkum uppruna og tengjumst því á ýmsan hátt. Þetta á ekki síst við hér á landi þar sem vinnumarkaðurinn okkar er að hluta borinn upp af fólki frá Austur-Evrópu. Fjöldi félaga í okkar samtökum eiga um sárt að binda þessa dagana vegna átakanna, eiga ættingja og vini á stríðssvæðunum og við verðum að sýna stuðning og virðingu gagnvart félögum okkar. Við heyrum líka frá félögum okkar að hér á landi er nokkur fjöldi fólks frá Úkraínu sem hefur sótt um dvalarleyfi eða eru beinlínis í felum. Ég vil því ítreka þá kröfu að stjórnvöld veiti þessu fólki öryggi strax og fari svo að vinna að fjölskyldusameiningu og móttöku flóttafólks. Stríðið mun hafa afleiðingar víða í Evrópu og Ísland verður ekki undanskilið. Tölum fyrir friði og mannúð og gerum það strax sem í okkar valdi stendur.

Góða helgi,

Drífa

Höfundur er forseti ASÍ. 




Skoðun

Sjá meira


×