Erlent

Íslendingur í Kænugarði segir ýmis vandamál virðast plaga Rússa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Óskar Hallgrímsson stóð í biðröð fyrir utan apótek í morgun þegar fréttastofa náði tali af honum.
Óskar Hallgrímsson stóð í biðröð fyrir utan apótek í morgun þegar fréttastofa náði tali af honum. Vísir

Óskar Hallgrímsson ljósmyndari, sem búsettur er í Kænugarði, segir síðasta sólahring hafa verið nokkuð rólegan í borginni, fyrir utan tvær stórar sprengingar í gær þar sem ráðist var á sjónvarpsturn annars vegar og minnisvarða um Helförina hins vegar.

Fréttastofa ræddi við Óskar í morgun, meðal annars um hergagnalestina sem stefnir í átt að Kænugarði, en hann segir marga velta því fyrir sér hvers vegna úkraínski herinn hafi ekki ráðist gegn lestinni úr lofti. Ástæðan sé öðrum þræði sú að herinn hafi ekki úr mörgum flugvélum að spila og þá þyki ljóst að lestin sé líklega vel varin.

Hins vegar virðist ýmis vandamál plaga Rússana, meðal annars eldsneytisskortur, sem sé meðal annars ástæða þess að förin hefur tekið jafn langan tíma og raun ber vitni. Þá hafi Úkraínumenn, sem fylgist vel með lestinni, verið að taka út eitt og eitt farartæki og tefja þannig fyrir.

Óskar stóð í röð fyrir utan apótek þegar fréttastofa náði tali af honum. Hann hafði farið af stað um leið og útgöngubannið í borginni heimilaði, klukkan átta, en 20 til 30 manns væru þegar í röð.

Hann sagði baráttuanda í borgarbúum og að hann efldist líklega með hverjum degi. Flestir þeir sem hefðu ætlað að fara úr borginni væru farnir. Mikil sameiningarandi ríkti og að mesta „panikkið“ væri yfirstaðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×