Innherji

Prófkjörsslagur Innherja: Þrjár takast á um oddvitasæti VG í borginni

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Elín Oddný Sigurðardóttir varaborgarfulltrúi, Líf Magneudóttir oddviti VG og borgarfulltrúi og Elín Björk Jónasdóttir á Veðurstofunni. Allar bjóða þær sig fram til að leiða lista VG í borginni.
Elín Oddný Sigurðardóttir varaborgarfulltrúi, Líf Magneudóttir oddviti VG og borgarfulltrúi og Elín Björk Jónasdóttir á Veðurstofunni. Allar bjóða þær sig fram til að leiða lista VG í borginni.

Þrjár takast á um oddvitasæti Vinstri grænna í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.

Þær eru Líf Magneudóttir sem er einnig sitjandi oddviti, Elín Oddný Sigurðardóttir sem er varaborgarfulltrúi VG og svo Elín Björk Jónasdóttir sem er ný á hinu pólítíska sviði en hefur undanfarið starfað á Veðurstofu Íslands.

Forvalið, sem er rafrænt, hófst á miðnætti og lýkur klukkan fimm á laugardaginn.

Líf segist áfram ætla sér að leggja mesta áherslu á loftslagsmálin en hún hefur starfað í borgarstjórn í fjölda ára. „Þau eru númer eitt, tvö og þrjú hjá mér og hafa verið á undanförnum árum. Ég hvet allt fólk sem setur loftslagsmálin á oddinn til að kjósa mig,” segir Líf.

Ég kem ný inn með reynslu af vísindamiðlun, náttúruhamfarastjórnun ásamt víðtækri reynslu sem ég hef sankað að mér í gegnum tíðina. Ég legg áherslu á vísindalega nálgun málefna, góða verkefnastýringu og yfirsýn, segir Elín Björk.

Vill fjölga félagslegum leiguíbúðum

Elín Oddný segir þau þrjú málefni sem helst brenna á henni vera mannréttindi og menningu, að skapa velferðarborg í Reykjavík sem tekur utan um börn og að líta á húsnæðismálin sem velferðarmál. Þar sé mikilvægt að efla uppbyggingu á vegum óhagnaðardrifinna félaga. 

„Og halda áfram að fjölga félagslegum leiguíbúðum, auka framboð af hagkvæmu húsnæði og stofna leigufélag innan almenna íbúðakerfisins á vegum Reykjavíkurborgar,” segir Elín Oddný og bætir við að mikilvægt sé að halda áfram að efla alla velferðarþjónustu í borginni bæði til eldra fólks, fatlaðs fólks, barna og annarra sem þurfa stuðning.

Ég tel mig hafa reynslu, þekkingu og brennandi áhuga á borgarmálunum sem ég tel að nýtist við að leiða lista VG. Mín hugsjón hefur ávallt verið skýr, að vinna í þágu velferðar borgarbúa í sem víðustum skilningi þess hugtaks, segir Elín Oddný.

Kemur inn með vísindalega nálgun á málefnin

Elín Björk leggur áherslu á skipulagsmál með umhverfisvernd að leiðarljósi, menntamál og jafnan aðgang allra barna að menntun og húsnæðismál. „Ég kem ný inn með reynslu af vísindamiðlun, náttúruhamfarastjórnun ásamt víðtækri reynslu sem ég hef sankað að mér í gegnum tíðina. Ég legg áherslu á vísindalega nálgun málefna, góða verkefnastýringu og yfirsýn,” segir hún frá.

Mér finnst sérstaklega skemmtileg þessi deigla sem verður til þegar við finnum að okkur er að takast að breyta borginni. Borg sem er femínísk græn og þétt er loftslagsborg á heimsmælikvarða. Og þannig hef ég unnið að því að gera borgina, segir Líf.

Elín Oddný segir oddvitaframbjóðendurnar þrjá alla ólíka. „Ég tel mig hafa reynslu, þekkingu og brennandi áhuga á borgarmálunum sem ég tel að nýtist við að leiða lista VG. Mín hugsjón hefur ávallt verið skýr, að vinna í þágu velferðar borgarbúa í sem víðustum skilningi þess hugtaks og skapa samfélag þar sem öll fá notið mannréttinda og full tækifæri til þátttöku,” segir hún.

Líf hefur notið sín í starfi borgarfulltrúans undanfarin ár. „Mér finnst sérstaklega skemmtileg þessi deigla sem verður til þegar við finnum að okkur er að takast að breyta borginni. Borg sem er femínísk græn og þétt er loftslagsborg á heimsmælikvarða. Og þannig hef ég unnið að því að gera borgina,” útskýrir Líf.

Starfið spennandi en pólítískt skítkast getur verið leiðinlegt

Elín Björk er sem fyrr segir ný í stjórnmálum. Af hverju VG?

„Því VG er feminískur og róttækur vinstriflokkur með umhverfishjarta. Í VG vinna öll af heilindum fyrir góðum málefnum sem gera samfélagið okkar betra,” segir hún og bætir við að hún hlakki til að kynnast öllu því starfi sem fram fer í borginni. „Og kynnast öllu því fólki sem borgin á að þjóna.”

Líf og Elín Oddný hafa hins vegar reynslu af borgarmálunum. Hvað er leiðinlegast við starfið?

Pólitískt skítkast er leiðinlegast, óbilgirni, óheiðarleiki og útúrsnúningar," segir Líf, beint út.

Elín Oddný segir lífið sjálft alltaf vera upp og niður en á erfitt með að finna eitthvað leiðinlegt við starfið. „Viðfangsefnin eru spennandi og næg verkefni á hverjum degi til að takast á við," segir hún að lokum.

Á næstu dögum og vikum mun Innherji birta prófkjörsslagi úr spennandi prófkjörum og forvölum ýmissa flokka sem eiga sér stað í sveitarfélögunum í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×