Áslaug Hulda, sem er sitjandi oddviti Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ, leggur áherslu á sterka fjárhagsstöðu, stafræna þróun og hátt þjónustustig. Hún vill öfluga skóla, íþrótta- og tómstundastarf og góða þjónustu fyrir eldri bæjarbúa.
„Við verðum að gera kerfisbreytingar á leikskólakerfinu, það fæst ekki starfsfólk í skólana og það er engin framtíð án fólks,” segir Áslaug Hulda.
Hún vill efla frjálsu félögin og hafa fjölbreytta valkosti um íþrótta- tómstundastarf. „Góðir innviðir, aðstaða og búnaður, stuðla að aukinni virkni og þátttöku bæjarbúa. Eflum miðbæ og hverfiskjarna, þannig fáum við skemmtilegra mannlíf og öflugra atvinnulíf,” segir Áslaug Hulda sem vill einnig halda álögum lágum, lækka fasteignaskatta og sér gríðarlega tækifæri í stafrænni þróun á sveitarstjórnarstiginu.
Almar leggur einnig áherslu á traustan rekstur. „Því við gerum fátt ef við eigum ekki peninga,” segir Almar.
Eflum miðbæ og hverfiskjarna, þannig fáum við skemmtilegra mannlíf og öflugra atvinnulíf, segir Áslaug Hulda
Hann segir íþróttir, hreyfingu og lýðheilsa þurfa að vera í öndvegi. „Í góðu samfélagi eins og Garðabæ. Svo á starfsfólkið sem skilar Garðabæ í fremstu röð hvað varðar þjónustu ár eftir ár það skilið að við hlúum vel að starfsumhverfi þess,” segir hann.
Sigríður Hulda leggur áherslu á ábyrgð, vinnusemi og stöðugleika. „Að halda vel utan um auðlindirnar þrjá fólk, fjármuni og náttúru. Ábyrgð í fjármálum er grundvöllur öflugrar þjónustu,” segir Sigríður Hulda og bætir við að hún vilji auka samvinnu við íbúa.
Svo á starfsfólkið sem skilar Garðabæ í fremstu röð hvað varðar þjónustu ár eftir ár það skilið að við hlúum vel að starfsumhverfi þess, segir Almar.
„Samtal og lýðræði. Gegnsæi og lýðræðisleg aðkoma bæjarbúa að ákvörðunum er eðlileg nútímakrafa. Ég vinn með fólki fyrir fólk,” segir hún. Þá vill hún beina sjónum sínum að hagsmunum ungmenna og þeirra sem eldri eru. „Garðabær er og á að vera skólabær í fremstu röð og þar á að vera best að eldast,” segir hún
Allir frambjóðendurnir þrautreynt fólk
Aðspurð hvað hún telji aðgreini sig frá mótframbjóðendunum tveimur segist Áslaug Hulda hafa þekkinguna, reynsluna og kraftinn til að leiða öflugan framboðslista Sjálfstæðisflokksins til sigurs í vor.
Garðabær er og á að vera skólabær í fremstu röð og þar á að vera best að eldast, segir Sigríður Hulda
„Í rúman áratug hef ég verið bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, fyrst sem forseti bæjarstjórnar og síðustu átta ár sem formaður bæjarráðs Garðabæjar,” segir Áslaug Hulda.
„Víðtæk reynsla mín á vettvangi stjórnmálanna og í stjórnsýslunni mun nýtast vel ásamt dýrmætri reynslu úr atvinnulífinu. Ég var framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar sem rekur 19 leik- og grunnskóla en rekstur leik- og grunnskóla er eitt helsta verkefni sveitarfélaga. Ég kom að stofnun heilbrigðis- og velferðarfyrirtækis sem sinnir heimaþjónustu fyrir eldra fólk og fatlaða. Síðustu ár hef ég komið að uppbyggingu umhverfisfyrirtækisins Pure North Recycling sem endurvinnur plast,” segir Áslaug Hulda.
Almar segir að hann sé reynslumikill af rekstri og fjármálum. „Ég er auk þess reyndur og vanur að leiða verkefni og sjá til þess að þau verði vel unnin af hópnum hverju sinni. Ég hef oft skapað liðsheild til árangurs,” segir hann.
Sigríður Hulda segir reynslu sína og menntun henta vel í starfið sem hún sækist eftir. „Ég hef yfirgripsmikla reynslu af stjórnun, mannauðsmálum, stefnumótun og rekstri sem nýtist vel. Auk þess eru mínir lykilstyrkleikar tengdir samskiptum, að koma hlutum í framkvæmd og skapa jákvætt andrúmsloft í kringum það,” segir Sigríður Hulda.
„Lífsreynslan skiptir líka máli, að geta sett sig inni ólíkar aðstæður og spor fólks, hafa hugrekki til að hugsa stórt og takast á við áskoranir, skapa liðsheild, framtíðarsýn og sátt.”
Samskiptin við íbúana það dýrmætasta
Áslaug Hulda segir það skemmtilegasta við starf bæjarfulltrúans vera samskipti við fólk. „Að hlusta og geta komið málum í farveg. Okkur þykir öllum vænt um nærumhverfið okkar og viljum hafa áhrif. Starf bæjarfulltrúans er í raun þjónustustarf og stefnumótun, við störfum í umboði bæjarbúa. Við eigum því að hlusta og koma málum í farveg,” segir hún.
Henni finnst óþolandi þegar mál fara ekki nógu vel. „Ganga ekki upp eða ganga of hægt.”
Almar segir það skemmtilegasta við starf bæjarfulltrúans vera hin mikla nálægð við verkefnin sem einkenna bæjarmál. „Og fólkið sem framkvæmir þau með manni er það skemmtilegasta. Það gefur manni mikið að eiga í samskiptum við börn sem og fullorðna og þá sem eldri eru,” segir hann.
Okkur þykir öllum vænt um nærumhverfið okkar og viljum hafa áhrif. Starf bæjarfulltrúans er í raun þjónustustarf og stefnumótun, við störfum í umboði bæjarbúa, segir Áslaug Hulda
En leiðinlegast?
„Ég hugsa ekki svona - lífið er skemmtilegt. Verkefni eru krefjandi en ekki leiðinleg,” segir Almar.
Sigríði Huldu finnst skemmtilegast að vinna með íbúum og fyrir íbúa að því að gera Garðabæ enn betri bæ til að búa í. „Tengja saman verkefni, fólk og sýn - skapa lausnir. Setja mig enn betur inní ótal mál, aðstæður og væntingar bæjarbúa og hópa innan bæjarins,” segir hún og segir ekkert leiðinlegt við starfið. „Ég nýt þess að vinna með fólki, setja mig inn í verkefni og skapa enn öflugra sveitafélag í Garðabæ. Ég mun helga mig þessu verkefni. Auðvitað koma upp aðstæður þar sem þarf að samræma ólíkar væntingar og hagsmuni en það er hluti af öllum störfum og lífinu sjálfu,” segir hún.
En af hverju Sjálfstæðisflokkurinn?
Áslaug Hulda segist trúa á frelsi einstaklingsins og frelsi til athafna.„ Mér finnst mikilvægt að í stefnumörkun og ákvarðanatökum séu grunngildi Sjálfstæðisflokksins í forgrunni með valfrelsi íbúa og lágar álögur – og það þarf að fara vel með fjármuni. Stjórnmál eiga að vera uppbyggileg og skemmtileg, metnaðarfull og framsýn. Þannig er pólitíkin í Sjálfstæðisflokknum í Garðabæ og þess vegna hefur gengið vel í Garðabæ,” segir Áslaug Hulda.
Almar segir stefnu flokksins hafa skilað Íslandi og Garðabæ í fremstu röð. „Mér hugnast vel áhersla á einkaframtak í samvinnu við hið opinbera,” segir hann.
Sigríði Huldu finnst stefnan hvetjandi. „Valfrelsið skiptir máli og skapar fjölbreytileika. Að skapa umgjörð sem hvetur einstaklinga, félög og fyrirtæki til góðra verka er grunnurinn. Ég lærði snemma að lífð er það sem þú gerir úr því. Í stefnunnni er einnig áhersla á ,,stétt með stétt“, það er að við styðjum hvert annað, styðjum til sjálfshjálpar og þá sem þurfa sérstakan stuðning til að blómstra í samfélaginu. Það er hagur og ábyrgð okkar allra.”
Á næstunni mun Innherji birta viðtöl við oddvita úr spennandi prófkjörum og forvölum ýmissa flokka sem eiga sér stað í sveitarfélögunum í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga 2022.