Viðskipti innlent

„Mér þykir Íslendingar full fljótir að fara í kjarnorkubyrgin“

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Snorri Jakobsson, hagfræðingur og eigandi Jakobsson Capital.
Snorri Jakobsson, hagfræðingur og eigandi Jakobsson Capital. Stöð 2/Egill

Rauður dagur var í kauphöllinni í dag. Hagfræðingur segir sérstakt að hækkandi olíuverð hafi meiri áhrif hér á landi en í löndum sem eru háð olíu Rússa og telur Íslendinga full fljóta í kjarnorkubyrgin.

Verð á hlutabréfum allra fyrirtækja sem skráð eru í Kauphöllinni lækkuðu í morgun. Svona leit Kauphöllin út um miðjan dag þegar þessi frétt var unnin.

Icelandair lækkaði um rúm 8,6 prósent og Íslandsbanki um 2,9 prósent. Hagfræðingur segir að lækkunin sé meiri hér en viða erlendis.

„Mér þykir Íslendingar full fljótir að fara í kjarnorkubyrgin. Íslenski markaðurinn er búinn að lækka töluvert meira en Dow Jones og SUP og danska vísitalan og norska. Markaðir sem hafa allir hækkað eftir stríðið en úrvalsvísitalan íslenska hefur lækkar um tíu prósent,“ sagði Snorri Jakobsson, hagfræðingur og eigandi Jakobsson Capital.

Markaðurinn grunnur

Hann segir að ástæðan sé sú að markaðurinn hér á landi sé frekar grunnur. Hann sé lítill og því þurfi minna til þess að hreyfa við honum.

„Þegar markaðurinn er svona lítill þá þarf minna til þess að hækka hann og minna til þess að lækka hann niður. Hann er frekar þunnur, fáir aðilar til að koma inn á markaðinn til þess að koma. Það verða meiri sveiflur. Það vantar kannski menn sem taka stöðu á móti þegar það verða miklar hækkanir eða koma inn þegar það verða miklar lækkanir.“

Hækkun olíuverðs hafi mikil áhrif en olíuverð í heiminum hefur ekki verið hærra í mörg ár. Snorri segir það að einhverju leyti sérstakt hve mikil áhrif olíuverð hefur á íslenskan markað.

„Varðandi íslenska hlutabréfamarkaðinn þá er sérstakt að hann sé að lækka meira en í löndum sem eru algjörlega háð olíu og viðskiptum við Úkraínu og Rússland. Lönd sem eru í austur, eða mið Evrópu og markaðurinn hér að lækka sama eða jafnvel meira.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×