Á síðasta ári voru flugvélar við kafbátaeftirlit flesta daga ársins samanborið við 21 dag árið 2014. „Þessi fjölgun eftirlitsdaga er skýrt teikn um þær breytingar sem hafa orðið á öryggisumhverfi Íslands,” segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra.
Hún segir kafbátaeftirlitið liður í vöktun bandalagsríkjanna í Norður Atlantshafi.
Heimildir Innherja herma að eftirlitið sé meðal annars til þess að tryggja fjarskiptaöryggi enda liggur tenging Íslands við umheiminn í gegnum sæstrengi. Áður hafa komið fram vísbendingar þess efnis að rússneskir kafbátar hafi komið sér fyrir nálægt sæstrengjunum tveimur sem liggja frá Íslandi til Evrópu. Í hvaða tilgangi er ekki hægt að fullyrða um.
Sæstrengir gegna veigamiklu hluverki í samskiptum okkar við okkar helstu útflutningslönd, segir Áslaug Arna
Rof eða skemmdir á strengjunum hefðu víðtæk áhrif
Sæstrengir falla undir nýstofnað ráðuneyti Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttir sem segir sífellt verið að reyna að auka öryggi fjarskipta, almennt. „Sæstrengir gegna veigamiklu hluverki í samskiptum okkar við okkar helstu útflutningslönd,” segir hún og bætar við að aukin áhersla hafi undanfarið verið lögð á öryggi fjarskipta út frá almannahagsmunum og þjóðaröryggi.
„Ekki síst því nánast öll tal- og gagnafjarskipti frá landinu til útlanda fara í gegnum strengina."
Rof eða skemmdir á sæstrengjunum gætu gert Ísland að mestu sambandslaust við umheiminn. Slíkt gæti haft víðtækar afleiðingar á efnahag þjóðarinnar og öryggis- og varnarmál. Gríðarlega kostnaðarsamt gæti reynst að bæta slíkar skemmdir.
Við getum leyft okkur að vera þakklát fyrir herleysið okkar, en við ættum ekki að gorta okkur af því. Ísland treystir nefnilega líka á hernaðarstyrk þegar á reynir til þess að tryggja frið og öryggi, segir Þórdís Kolbrún
Áslaug Arna segir að öflug, íslensk fyrirtæki í landinu reiði sig mjög á gott og öruggt samband við útlönd.
Eftirlitið mikilvægt til að tryggja frið og öryggi
Þórdís Kolbrún segir Íslendinga vera herlausa þjóð og friðelskandi. „En reyndin er sú að venjulegt fólk í öllum löndum - almenningur - er líka friðelskandi og hatar stríð,” segir hún.
„Þetta á einnig, og ekki síst, við í löndum sem ekki geta kosið þann munað að vera herlaus. Við getum leyft okkur að vera þakklát fyrir herleysið okkar, en við ættum ekki að gorta okkur af því. Ísland treystir nefnilega líka á hernaðarstyrk þegar á reynir til þess að tryggja frið og öryggi.”