Lífið

Stór­leikarinn Willi­am Hurt látinn

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
William Hurt heldur ræðu á kvikmyndahátíðinni í Santa Barbara árið 2017.
William Hurt heldur ræðu á kvikmyndahátíðinni í Santa Barbara árið 2017. Getty/Winkelmeyer

Bandaríski stórleikarinn William Hurt er látinn aðeins 71 árs.

Hurt hlaut meðal annars Óskarsverðlaun fyrir leik sinn í bíómyndinni Kiss of the Spider Woman árið 1986 auk tveggja tilnefninga fyrir leik sinn í myndunum Broadcast News og Children of a Lesser God.

Leikarinn fæddist árið 1950, lagði stund á guðfræði en sneri sér síðar að leiklistinni og hóf nám í Julliard árið 1972. Eftir að hafa leikið í leikhúsi landaði hann sínu fyrsta stóra hlutverki í kvikmyndinni Altered States árið 1980. Hurt skaust skömmu síðar upp á stjörnuhimininn þegar hann lék í kvikmyndinni Body Heat, þar sem hann lék á móti leikkonunni Kathleen Turner.

Sonur Hurt sagði í yfirlýsingu í dag að leikarinn hafi dáið af náttúrulegum orsökum: „Það hryggir mig að tilkynna það að William Hurt, faðir minn, sé látinn. Andlátið ber að aðeins viku fyrir 72 ára afmæli hans. Hann lést af náttúrulegum orsökum í faðmi fjölskyldu sinnar í dag,“ segir hjá Guardian.

Þá hefur leikarinn leikið í fjölmörgum Marvel myndum síðustu ár, þar á meðal Captain America, Black Widow og ofurhetjumyndunum Avengers. Þá hafði hann leikið í þáttunum Goliath síðan 2016.

Leikarinn skilur eftir sig fjögur börn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×