Skoðun

Eitt úti­lokar ekki annað

Davíð Guðmundsson skrifar

Þegar samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins er skoðaður er margt sem kemur þægilega á óvart í ljósi þess hve mikil átök fylgja núverandi borgarstjórn. Af þeim 120 milljörðum sem fjárfesta á í samgönguinnviðum á næstu árum er fyrirhugað að fjárfesta rúmlega 52 í umbætur á núverandi vegakerfi, tæplega 50 í almenningssamgöngur, 7 í bætt umferðarstýringarkerfi og 8 í göngu- og hjólastíga. Sáttmálinn endurspeglar fjölbreytni í ferðamátum og sætir því talsverðri furðu hversu mikill styr hefur ríkt um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum árum.

Við sem búum í austari hluta borgarinnar eigum þó ef til vill auðveldara en aðrir með að geta okkur til um af hverju ósættið stafar. Mörg okkar tengja nefnilega við að hafa upplifað okkur annars flokks þegar kemur að málefnum borgarinnar okkar. Mér reyndari stjórnmálaspekúlantar geta kannski útskýrt hvernig það þjónar hagsmunum kjörinna fulltrúa að skipa fólki í fylkingar og koma þeim kyrfilega fyrir í ákveðnum hólfum. Við sem stöndum utan við þennan veruleika eigum erfitt með að skilja hann.

Reykvíkingar eru jafn misjafnir og þeir eru margir og flest okkar eru svo lánsöm að upplifa ólík æviskeið. Á langri ævi getur fólk lifað mörgum ólíkum lífsstílum. Bíllaus lífsstíll hentar vel á ákveðnum tímabilum en þegar fjölskyldulífið tekur yfir getur verið gott að eiga tvo bíla og stórt húsnæði. Svo þegar hægist um er hægt að breyta til.

Allir borgarbúar eiga að upplifa sig jafn réttháa óháð lífsstíl, stöðu og aldri. Hverfin okkar hafa öll sína sérstöðu og eru öll frábær á sinn hátt. Við þurfum að styrkja þau og byggja upp samgöngukerfi sem tengir hverfi borgarinnar saman þannig að fólk búi við valfrelsi og geti á hagkvæman og skilvirkan hátt komist á milli staða óháð stöðu og stétt.

Verkefnið er í grunninn einfalt en framkvæmdin hefur reynst núverandi meirihluta um megn. Það er ekki eðlilegt að rifist sé um hvort að rétt sé að þrífa götur eða byggja mislæg gatnamót þar sem umferðarteppur blasa við öllum sem vilja sjá og heyra.

Rödd skynseminnar í þessum efnum er Hildur Björnsdóttir, borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins. Hún vill binda enda á nokkuð sem hún kallar menningarstríðið í borginni - þar sem ólíkum hópum er teflt upp á móti hver öðrum í samgöngumálum. Sú hugmynd að velja þurfi einn fararmáta alltaf og til frambúðar er bæði óraunhæf og leiðinleg. Það er ekkert því til fyrirstöðu að hægt sé að byggja upp almenningssamgöngur um leið og tekið er tillit til þess að stærstur meirihluti fólks mun áfram fara ferða sinna á bíl.

Pólitísk hugmyndafræði í lítilli borg á norðurhjara veraldar á ekki að vera á kostnað heilbrigðrar skynsemi. Eitt útilokar ekki annað og í grunninn eru hagsmunir okkar Reykvíkinga þeir sömu. Fyrir þeim vil ég að sé barist og því mun ég kjósa Hildi Björnsdóttur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins nú um helgina.

Höfundur er lögmaður.




Skoðun

Sjá meira


×