Handbolti

„Set líka þrýsting á mig að vera frábær“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon og félagar hans í Magdeburg geta unnið þrefalt á þessu tímabili.
Ómar Ingi Magnússon og félagar hans í Magdeburg geta unnið þrefalt á þessu tímabili. stöð 2 sport

Ómar Ingi Magnússon fagnar því að auknar kröfur séu gerðar til íslenska landsliðsins í handbolta.

Íslenska landsliðið kom saman til æfinga á mánudaginn. Þetta er í fyrsta sinn sem liðið hittist eftir Evrópumótið í janúar þar sem Ísland endaði í 6. sæti.

„Það er æðislegt að vera kominn heim. Ég held að allir njóti þess að vera á Íslandi og það er gott að hitta strákana aftur. Maður saknaði þeirra. Ég er ánægður með þessa viku sem við fáum og vona að hún nýtist vel,“ sagði Ómar í samtali við Guðjón Guðmundsson fyrir æfingu landsliðsins í Safamýrinni.

Ísland mætir annað hvort Austurríki eða Eistlandi í tveimur leikjum um sæti á HM um miðjan apríl. Talsverðar væntingar eru gerðar til íslenska liðsins eftir góða frammistöðu á EM og Ómar tekur meiri kröfum fagnandi.

„Það er bara flott. Við viljum fá pressu, það er gott, og þýðir að við getum eitthvað. Við þurfum að klára þá leiki og það er stefnan,“ sagði Ómar.

Klippa: Viðtal við Ómar Inga

Selfyssingurinn hefur verið einn allra besti leikmaður þýsku úrvalsdeildarinnar undanfarin tvö ár. Lið hans, Magdeburg, er með gott forskot á toppi deildarinnar.

„Það eru alls konar smáatriði sem maður þarf að huga að til að vera góður í handbolta. Ég reyni bara að spila minn besta leik alltaf þegar ég kem inn á völlinn. Það er markmiðið í hverjum leik, að gefa sig allan í þetta og vera á fullu allan tímann,“ sagði Ómar.

Hann lætur velgengnina ekki stíga sér til höfuðs og er með báða fætur kyrfilega á jörðinni, jafnvel þótt talað sé um hann sem besta leikmann þýsku deildarinnar.

„Maður þarf að halda. Markmiðið er að vera talinn einn af þeim betri og þá er ánægður. Ég set líka þrýsting á mig að vera frábær,“ sagði Ómar að endingu.

Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Búinn að sjá medalíu með landsliðinu fyrir sér í mörg ár

Bjarki Már Elísson er markahæsti leikmaður þýsku úrvalsdeildarinnar. Hann er ánægður með hvernig honum hefur vegnað að undanförnu og hlakkar til að fara til ungverska stórliðsins Veszprém. Bjarki ætlar að vinna til verðlauna með íslenska landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×