Fréttir

Lét til­leiðast og tók um­deilt frum­varp af dag­skrá

Snorri Másson og Árni Sæberg skrifa

Heilbrigðisráðherra tók í dag umdeilt frumvarp um réttindi sjúklinga af dagskrá þingsins eftir mikla gagnrýni um samráðsleysi við sjúklingana sem það hefði áhrif á.

Hið umdeilda frumvarp snýst um skýrari heimildir heilbrigðisstarfsfólks á lokuðum geðheilbrigðisstofnunum, til dæmis, til að beita mjög róttækum inngripum á sjúklinga. Til  dæmis nauðungarvistunum.

Geðhjálp gagnrýndi frumvarpið harðlega í gær vegna þess að við vinnslu þess var ekki haft samráð við sjúklingana heldur bara heilbrigðisstarfsfólk. Frumvarpið væti til þess að bæta starfsaðstæður heilbrigðisstarfsfólks en ekki kjör sjúklinga.

Frumvarpið eigi heima í endurvinnslu

Gagnrýni þingmanna sneri að þessu sama atriði og var í raun og veru mjög hörð, alveg þangað til í dag þegar frumvarpið var skyndilega tekið af dagskrá þingsins.

„Hvað veldur því að þetta mál, sem í gær var sagt að þyrfti vandlega umræðu hér á Alþingi, hvers vegna það er skyndilega með nokkurra mínútna fyrirvara tekið af dagskrá þingsins?“ spurði Helga Vala Helgadóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, á þingfundi í dag.

„Ég skynjaði þann tón í gær að hæstvirtur heilbrigðisráðherra hafi eiginlega áttað sig á því að það var frumhlaup hjá honum að fara fram með málið þegar hann áttaði sig á því að honum bara ekkert endilega að gera það nákvæmlega eins og fyrrverandi hæstvirtur ráðherra, heldur hefði hann átt að nýta tækifærið til að tala við þá sem málið varðar sárlegast, sem eru sjúklingarnir sjálfir og hagsmunaaðilar þeirra. Ég ætla að þessu sinni að leyfa mér að hrósa hæstvirtum ráðherra og hvetja hann til að koma ekki með málið fyrrr en hann er tilbúinn með það,“ sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.

„Við eigum heimtingu á að vita hvort ráðherrann ætlaði að berja höfðinu við steininn og reyna að halda áfram að mæla fyrir máli sem best á heima uppi í ráðuneyti í endurvinnslu,“ sagði Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata.

Betra samráð muni leiða til betra frumvarps

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, hefur nú ákveðið að setja á fót samráðshóp til að fjalla nánar um afstöðu notendahópa til málsins og mögulegar breytingar á frumvarpinu, að því er segir í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.

„Ég ætla bara að bregðast við því ákalli og kalla málið til baka í ráðuneytið og kalla að alla þá fjölmörgu aðila sem komu fram í umræðunni í gær til umræðu um þetta mál, í þeirri von um að við getum bætt úr því sem þar kemur fram og litið til annarra laga eins og hefur verið bent á,“ segir Willum.

Finnst þér þú vera að éta eitthvað ofan í þig með það, hefðir þú viljað keyra þetta í gegn?

„Nei, alls ekki. Ég auðvitað hlusta á stofnanir Alþingis, hlusta á umboðsmann Alþingis og bregst við þeim ábendingum sem koma þar fram og það er sjálfsagt mál að bregðast við þessu og fá fram aukið samráð og ég mun kalla til þess á mjög breiðum grunni,“ segir Willum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×