Skoðun

Leyfum Hildi að rétta kúrsinn

Gréta Ingþórsdóttir skrifar

Um helgina ganga Sjálfstæðismenn að kjörkössunum og kjósa sér leiðtoga í Reykjavík. Valið stendur á milli tveggja ungra kjarnakvenna sem báðar eiga mikið erindi í stjórnmálum.

Önnur þeirra, Hildur Björnsdóttir, hefur sýnt það og sannað undanfarin fjögur ár í starfi sínu sem borgarfulltrúi hversu yfirgripsmikla og djúpa þekkingu hún hefur á málefnum borgarinnar. Hún kemur auga á tækifærin til þess að bæta borgina okkar og hikar ekki við málefnalega gagnrýni. Því ekki er vanþörf á.

Borgin undir stjórn núverandi meirihluta hefur safnað skuldum í einhverju mesta tekjugóðæri sögunnar. Á sama tíma greiðir borgin sér himinháar fjárhæðir í formi arðgreiðslna úr Orkuveitunni - auk þess að hækka gjaldskrána. Starfsmönnum borgarinnar hefur fjölgað um tuttugu prósent á kjörtímabilinu á meðan kvartað er undan manneklu á öllum sviðum grunnþjónustu. Frumkvöðlum er gert erfitt fyrir með flóknu regluverki.

Þetta þarf ekki að vera svona en meirihlutinn í borgarstjórn, undir stjórn Dags B. Eggertssonar, hefur misst sjónar á hlutverki sínu og það þarf að rétta kúrsinn.

Reykjavík er nefnilega í samkeppni um fólk og hefur ekki efni á því að dragast aftur úr í þeirri samkeppni. Ég trúi því að undir forystu Hildar geti Sjálfstæðisflokkurinn sótt fram og myndað nýjan meirihluta þar sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur í stafni og tekur til í Reykjavík.

Það þarf breytingar í borginni sem ég treysti Hildi til að leiða. Ég set hana í fyrsta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík nú um helgina og hvet aðra sjálfstæðismenn til að gera það líka.

Höfundur er Sjálfstæðismaður og fyrrverandi starfsmaður Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×