Fótbolti

Overmars fljótur að finna sér nýtt starf þrátt fyrir óviðeigandi hegðun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marc Overmars var ekki lengi atvinnulaus en færir sig yfir frá Hollandi til Belgíu.
Marc Overmars var ekki lengi atvinnulaus en færir sig yfir frá Hollandi til Belgíu. Getty/Gerrit van Keulen

Hollenska knattspyrnugoðsögnin Marc Overmars var ekki lengi að finna sér nýtt starf í fótboltaheiminum þrátt fyrir að hafa yfirgefið Ajax með skömm fyrir aðeins meira en mánuði síðan.

Overmars er nýr yfirmaður knattspyrnumála hjá belgíska félaginu Royal Antwerp FC.

Hinn 48 ára gamli Overmars missti starfið sitt hjá Ajax eftir að hafa orðið uppvís að því að sendi óviðeigandi skilaboð og myndir til kvenkyns starfsmanna félagsins.

Overmars sendi skilaboðin á fjölmargar konur innan félagsins en hefur viðkennt að hegðun hans hafi verið óásættanleg.

Þegar Royal Antwerp kynnti Overmars til leiks þá sagði hann að tekið hafi verið á hans málum hjá Ajax og að þetta mál hafi ekki haft áhrif á viðræður hans við belgíska félagið.

„Það sem gerðist hjá Ajax mun ekki gerast aftur. Ég er ánægður með að vera kominn hingað. Þetta er nýr kafli fyrir mig. Falleg áskorun hjá félagi sem ég tel að eigi tækifæri til að vaxa,“ sagði Marc Overmars.

Sven Jaecques, framkvæmdastjóri Antwerp, sagðist ekki hafa rætt um ráðningu Overmars við kvenkyns starfsmenn félagsins og talaði um að það væri mikilvægt að gefa fólki annað tækifæri.

Overmars spilaði með Ajax frá 1992 til 1997 og gerðist síðan tæknilegur ráðgjafi árið 2012. Hann var með samning til ársins 2026 þegar hann var látinn fara. Overmars er þekktastur fyrir árin síns hjá Arsenal (1997-2000) og Barcelona (2000-04) en hann lék alls 86 landsleiki fyrir Hollendinga frá 1993 til 2004.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×