Í fréttum Stöðvar 2 var rifjað upp að gerð nýs Dettifossvegar hófst árið 2008. Það var svo loksins tólf árum síðar, haustið 2020, sem þrír ráðherrar gátu mætt á svæðið til að klippa á borðann.
En það var ekki bara ferðaþjónustan sem fagnaði. Hjá Silfurstjörnunni í Öxarfirði, sem núna heitir Samherji fiskeldi, sáu menn Dettifossveg stytta flutninga á eldislaxi á markað.

„Það fer héðan einn gámur á viku. Hann fer austur, á Reyðarfjörð eða Seyðisfjörð,“ segir Olga Gísladóttir, gæðastjóri Samherja fiskeldis í Öxarfirði, og segir að með því að fara um Dettifossveg sparist klukkustund í akstri hvora leið, tveir tímar fram og til baka, miðað við að aka um Húsavík.
En sá sparnaður næst bara ef Dettifossvegur er opinn og Vegagerðin mokar hann ekki frá 5. janúar og fram til 20. mars. Þá gildir svokölluð G-regla í snjómokstri, sem þýðir að ekki er mokað nema að beiðni viðkomandi sveitarfélags, og þá að hámarki einu sinni í viku, og gegn því að sveitarfélagið greiði helming kostnaðar á móti ríkinu.
Milljarða framkvæmdir við þrjár fiskeldisstöðvar standa yfir í Öxarfirði um þessar mundir. Samherji er að stækka landeldisstöð sína um helming og Rifós, dótturfyrirtæki Fiskeldis Austfjarða, reisir seiðaeldisstöð við Kópasker og aðra í Lóni í Kelduhverfi.

Eiginmaður Olgu rekur fyrirtækið Ístrukk, sem annast vöruflutninga vegna framkvæmdanna, og hefur meðal annars flutt steypueiningar frá Egilsstöðum til Kópaskers. Yfir háveturinn þarf hann að aka um Húsavík eða Vopnafjörð, meðan Dettifossvegur er ófær.
„Sem er náttúrlega bara illa nýtt fjárfesting, að hafa hann lokaðan. Hann var ekki mokaður. Þetta hefði sparað honum nokkra klukkutíma og vandræði við að komast á milli að hafa hann opinn. En hann var ekki opinn,“ segir Olga Gísladóttir.
Fjallað er um samfélagið á Kópaskeri í þættinum Um land allt, sem sýndur var á Stöð 2 í kvöld. Þáttinn má nálgast í heild sinni á streymisveitunni Stöð 2+.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: