Fótbolti

Sveindís ferðast til Lundúna

Sindri Sverrisson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir gæti mögulega tekið þátt í leiknum mikilvæga við Arsenal á morgun þrátt fyrir að hafa glímt við minni háttar meiðsli undanfarið.
Sveindís Jane Jónsdóttir gæti mögulega tekið þátt í leiknum mikilvæga við Arsenal á morgun þrátt fyrir að hafa glímt við minni háttar meiðsli undanfarið. vísir/Sigurjón

Sveindís Jane Jónsdóttir hefur jafnað sig af meiðslum fyrir leik Wolfsburg við Arsenal á Emirates-leikvanginum í Lundúnum — einn af stórleikjum vikunnar í Meistaradeild Evrópu í fótbolta.

Sveindís stimplaði sig frábærlega inn í fyrsta byrjunarliðsleik sínum með Wolfsburg þegar hún skoraði tvö fyrstu mörkin í 5-1 sigri gegn Köln í þýsku deildinni 11. mars. Þá varð hún hins vegar að fara af velli í hálfleik vegna smávægilegrar tognunar í læri.

Sveindís missti svo af síðustu tveimur leikjum, sigrum gegn Sand og Hoffenheim, en staðfesti við Vísi í dag að hún myndi ferðast með til Lundúna. Þangað fer reyndar 21 leikmaður Wolfsburg en 20 leikmenn verða svo í leikmannahópnum sem mætir Arsenal á morgun.

Um er að ræða fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Wolfsburg komst í 8-liða úrslitin með því að vinna annað Lundúnalið, Chelsea, 4-0 í lokaumferð riðlakeppninnar sem jafnframt varð til þess að Chelsea, silfurlið Meistaradeildarinnar í fyrra, sat eftir með sárt ennið.

Wolfsburg er núna á toppi þýsku deildarinnar en Arsenal, með hollensku markavélina Vivianne Miedema fremsta í flokki, er á toppi ensku úrvalseildarinnar, tveimur stigum fyrir ofan Chelsea sem á leik til góða.

Kvennalið Arsenal spilar vanalega heimaleiki sína á hinum 5.000 manna Meadow Park en verður á hinum 60.000 manna Emirates-leikvangi á morgun, þar sem karlalið félagsins spilar sína heimaleiki.

Seinni leikur Wolfsburg og Arsenal verður í Þýskalandi fimmtudaginn 31. mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×